140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þróun þyngdar hjá börnum og unglingum.

291. mál
[17:21]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur beint til mín tveimur spurningum varðandi þróun þyngdar hjá börnum og unglingum.

Í fyrsta lagi er spurt hvernig fylgst hefur verið með þróun þyngdar hjá börnum og unglingum á undanförnum árum.

Í öðru lagi er spurt hvað gert hefur verið til að koma í veg fyrir óeðlilega þyngdaraukningu hjá börnum og unglingum.

Fyrst er að nefna að til fjölda ára hafa skólahjúkrunarfræðingar vigtað og hæðarmælt öll börn í 1., 4., 7. og 9. bekk grunnskóla. Frá vetrinum 2002–2003 hefur þessum upplýsingum frá höfuðborgarsvæðinu verið safnað rafrænt með hugbúnaði sem nefnist Ískrá. Embætti landlæknis, áður Lýðheilsustöð, ásamt heilsugæslunni hefur birst skýrslur með niðurstöðum þessara mælinga, nú síðast í maí 2011. Sambærileg skýrsla um börn af landsbyggðinni hefur ekki verið unnin.

Niðurstöður fyrir skólaárið 2009–2010 sýna að um 20% grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu eru yfir kjörþyngd, þ.e. annaðhvort of þung eða of feit, þar eru 4,4% of feit.

Frá árinu 2005–2010 hefur hlutfall stúlkna og pilta sem eru yfir kjörþyngd lækkað nokkuð, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Á þessu tímabili lækkaði hlutfalls stúlkna yfir kjörþyngd úr 21,7% í 19,7%, en hlutfall pilta yfir kjörþyngd lækkaði úr 21,1% í 18,3%. Á þessu sama tímabili lækkaði hlutfall pilta og stúlkna sem teljast of feit lítillega, eða úr 4,7% í 4,4%. Þróunin virðist því vera að snúast við eða vera á réttri leið eins og hv. þingmaður orðaði það.

Kannanir á þróun þeirra þátta sem tengjast ofþyngd barna hvað helst, til að mynda hreyfingu og næringu, hafa verið gerðar reglulega hér á landi undanfarin ár. Sem dæmi má nefna rannsóknina „Ungt fólk“, sem Rannsóknir og greining gerir, og alþjóðlegu HBSC-rannsóknina, Health Behavior of School Children, sem er unnin í samstarfi Háskólans á Akureyri og embættis landlæknis.

Loks má nefna að nú er nýlokið norrænni rannsókn sem Ísland tók þátt í um mataræði, hreyfivenjur og holdafar 7–12 ára og 18–65 ára einstaklinga, er niðurstaðna að vænta síðar. Niðurstöður slíkrar rannsóknar eru nýttar á ýmsa vegu, meðal annars til að móta stefnu, bregðast við o.s.frv.

Ef ég sný mér að annarri spurningunni um hvað gert hefur verið til að koma í veg fyrir óeðlilega þyngdaraukningu hjá börnum og unglingum vil ég fyrst benda á að margir þættir í samfélaginu hafa áhrif á heilsufar einstaklinga og hópa. Þannig skiptir til dæmis miklu máli að aðstæður í nánasta umhverfi fólks sé með þeim hætti að þær stuðli að daglegri hreyfingu, góðri næringu sem og andlegri vellíðan.

Hvatning og fræðsla til almennings til daglegrar hreyfingar og til að neyta hollrar fæðu hefur frá upphafi verið stór þáttur í starfsemi Lýðheilsustöðvar, nú embættis landlæknis. Í því skyni hafa meðal annars verið gefnir út bæklingar eins og ráðleggingar um mataræði og næringarefni, ráðleggingar um hreyfingu, auk handbóka fyrir skólamötuneyti. Það er mjög mikilvægur þáttur í næringaruppeldi barna að skólamötuneyti virki vel. Síðast var gefin út handbók um hreyfingu fyrir grunnskóla. Embætti landlæknis vinnur nú að heilsueflingu í grunn- og framhaldsskólum í samstarfi við skóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið, Samband íslenska sveitarfélaga og fleiri með yfirgripsmiklum verkefnum, eins og um heilsueflandi grunnskóla og heilsueflandi framhaldsskóla. Framhaldsskólarnir eru komnir mjög vel af stað og grunnskólarnir líka og núna er rætt um að bæta leikskólunum við líka.

Í tengslum við þessi verkefni býðst skólum meðal annars að fá ýmiss konar stuðningsefni og námskeið til að vinna heildrænt að heilsueflingu nemenda og starfsfólks, ekki síst aukinni hreyfingu og hollu mataræði.

Heilsugæslan hefur einnig unnið öflugt forvarna- og heilsueflingarstarf í ung- og smábarnavernd og mæðravernd. Hefur meðal annars verið lögð áhersla á brjóstagjöf eingöngu fyrstu sex mánuði í ævi barns, en það er talin vera forvörn gegn ofþyngd og offitu síðar á ævinni. Þar er einnig veitt fræðsla til verðandi foreldra og foreldra ungra barna um heilsusamlega lifnaðarhætti, meðal annars mikilvægi holls mataræðis og hreyfingar.

Þá um skólaheilsugæsluna. Þar hefur verið unnið mikið starf innan veggja grunnskólanna sem miðar að fræðslu og lífsstílsumbótum og hefur skólaheilsugæslan meðal annars, í samvinnu við embætti landlæknis, gefið út fræðsluefni fyrir grunnskólanema um heilsusamlega lífshætti, þar með talið hreyfingu og næringu. Kallast efnið 6H heilsunnar, og er þar átt við hollustu, hreyfingu, hamingju, hreinlæti, hugrekki, hvíld og kynþroska.

Ég kem kannski betur að ýmsum öðrum þáttum í síðara svari mínu.