140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þróun þyngdar hjá börnum og unglingum.

291. mál
[17:29]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gleymdi að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu, ég held að það sé alveg rétt sem kom fram í máli hans að hún er afar mikilvæg og á alls ekki að vera á neikvæðum nótum, heldur eigum við að leita að lausnum og skoða sjálf okkur og hvað er æskilegt og nauðsynlegt til að ná árangri varðandi jákvæðan lífsstíl öllum til handa.

Það sem ég náði ekki að klára áðan er að ýmsir aðilar gegna þar auðvitað mjög miklu hlutverki og á hverjum degi, eins og einmitt þeir sem hv. þingmaður var að spyrja um fyrr í dag. Það er hlutverk og sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar, félagasamtaka og alls kyns hagsmunahópa að auka lífsgæði ungs fólks. Það er ljóst að til að árangur náist í baráttunni við ofþyngd Íslendinga, bæði hjá börnum og fullorðnum, þurfa allir — stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar — að leggjast á árarnar til að ná settum markmiðum.

Í skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið af ráðgjafahópi þar sem meðal annars kom að erlendur ráðgjafi, Boston Consulting Group, var einmitt sérstaklega bent á þetta viðfangsefni, ofþyngd, sem ákveðinn áhættuþátt í heilbrigðiskerfinu. Innan heilbrigðiskerfisins fer nú fram vinna til að fylgja þessu eftir.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni að það er mjög mikilvægt að við séum ekki með fordóma í garð þeirra sem teljast vera of þungir. Ég held að við eigum að nálgast þetta bara sem sameiginlegt viðfangsefni án þess að flokka fólk í sundur eftir útliti. Það er alla vega mjög hættulegt.

Það er líka rétt sem hefur komið fram að í þeim skjölum sem við sendum út fyrir áramótin vorum við sett mjög ofarlega yfir feitustu þjóðir og sagt að við værum næstfeitasta þjóð í heimi þá hefur gleymst að skoða það í samhengi við hvaða þjóðir voru undir í þeirri upptalningu og þar vantaði inn þjóðir. Þegar um stúlkur 5–17 ára er að ræða erum við í 10. efsta sæti (Forseti hringir.) og piltarnir í 17. sæti, þar sem við getum talað um að við séum of þung og of feit. Það þarf aðgerðir eða lífsstílsbreytingar, en það er ástæðulaust að tala um þetta sem eitthvert (Forseti hringir.) stórkostlegt vandamál.