140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

sykurneysla barna og unglinga.

292. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. velferðarráðherra, við erum á réttri leið varðandi þyngd barna. Það er gott, við eigum að nálgast það á jákvæðan hátt. Við eigum samt langt í land varðandi þann þátt sem mig langar að spyrja út í í þessari fyrirspurn, það er sykurneysla barna og unglinga.

Árið 2009 skýrði Fréttablaðið frá því að Íslendingar ættu hvorki meira né minna en Norðurlandamet í sykurneyslu, við neyttum allra Norðurlandaþjóða mest af sykri á ári. Vegur þar þyngst drykkja sykraðra gosdrykkja, sem er tæp 40% af allri sykurneyslunni. Það er í samræmi við tölur sem komu fram árið 2004, þar bentu Neytendasamtökin á að vaxandi sykurneysla ungs fólks væri sérstakt áhyggjuefni.

Ég hef fylgst svolítið með þessari umræðu og ekki bara á Íslandi, hinn frægi sjónvarpskokkur, Jamie Oliver, hefur tekið þetta mál upp á sína arma og bent á óhóflega sykurneyslu barna og unglinga, sér í lagi í Bandaríkjunum. Hann sagði að oft og tíðum væri sykurinn falinn í matnum og að foreldrar stæðu gjarnan í þeirri trú að börnin þeirra fengju hollan mat í skólum en það væri alls ekki alltaf svo. Stundum innihéldu mjólkurdrykkir jafnvel meira sykurmagn en kók.

Frétt á pressan.is vakti sérstaka athygli mína í tengslum við þessa umræðu, en hún bar fyrirsögnina „Leyndarmál hverjir flytja inn sykur til Íslands: upplýsingar sem eiga ekki erindi við þriðja aðila“. Það vakti furðu mína. Ég vonast til þess að hæstv. velferðarráðherra geti svarað því.

Samkvæmt þeirri frétt er ekki hægt að fá upplýsingar um innflytjendur sykurs. Vísað er í 10. gr. laga um Hagstofu Íslands þar sem þagnarskylda ríki um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga og lögaðila. Þessi gögn teljast því (Forseti hringir.) trúnaðargögn.

Það er afar erfitt að skilja af hverju sú þagnarskylda á við. Ég bendi á að Lýðheilsustöð hefur ítrekað varað við of mikilli sykurneyslu þjóðarinnar, ekki síst sykurneyslu barna.