140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

sykurneysla barna og unglinga.

292. mál
[17:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og innkomu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í hana.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir bendir á, við þurfum að gera mun á ofþyngd og offitu. Það er hluti af þeim misskilningi sem varð um hvernig ástandið væri og hvar okkur var raðað niður á lista þjóða, að menn gerðu ekki greinarmun á því tvennu.

Ég tek líka undir með hv. þingmanni að forvarnir byrja heima og við megum aldrei reikna með því að aðrir geti gert hlutina fyrir okkur. Ég hef oft nefnt það sjálfur, af því að það tengist hreyfingu og öðru, að við getum breytt umhverfinu þannig að auðveldara sé að hafa hlutina í lagi, t.d. í skólanum, að bjóða upp á hollan mat, vera ekki með sykurdrykki, hvort sem er á skemmtunum eða á öðrum viðburðum og passa upp á hvaða verslanir eru í nágrenninu. Það er hægt að hafa áhrif á verslunina, til dæmis á uppröðun í búðum og annað slíkt þar sem menn komast hjá því að lenda í slag við barnið sitt við kassann þar sem sælgætinu er yfirleitt stillt upp. Ég held að það skipti máli. Við getum gert mun betur hvað þetta varðar.

Ég tek undir með hv. málshefjanda og fyrirspyrjanda, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að við eigum að fjalla um málið á jákvæðan og leiðbeinandi hátt. Við eigum að leita að lausnum. Við eigum að reyna að finna út hvernig getum við gert betur með hagsmuni barna og unglinga og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Við eigum að reyna að hafa upplýsta umræðu, ekki til þess að finna einhverja sökudólga heldur miklu frekar til að geta brugðist við með skynsamlegum hætti.

Náðst hefur árangur á mjög mörgum sviðum. Við höfum séð það í tóbaksvörnum og einnig voru transfitusýrur nefndar. Við getum gert margt með sameiginlegu átaki ef við erum vakandi fyrir því sem gera þarf.