140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

tannskemmdir hjá börnum og unglingum.

293. mál
[17:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kemur hér með fyrirspurn um einn veikasta hlekk heilbrigðiskerfisins að ég tel, þ.e. um tannheilsu og hvernig okkur hefur tekist að halda á þeim málum á undanförnum árum. Nánast öll tannlæknaþjónusta á Íslandi er einkavædd, hún er rekin af tannlæknum sjálfum, og þar hafa menn verið án samnings í kringum 11 ár. Lagt var af stað með það í upphafi að kostnaður sem greiddur yrði fyrir hlutdeild, af því að við ræðum hér börn og unglinga og spurt er um hvort tannskemmdir hafi aukist hjá börnum og unglingum á umliðnum árum, lagt var af stað með það að endurgreiddur kostnaður væri um það bil 75% af raunkostnaði fyrir viðkomandi börn og foreldra þeirra þar með. Þetta hefur sigið niður á undanförnum árum smátt og smátt vegna þess að gjaldskrár tannlækna hafa hækkað en hlutdeild ríkisins hefur ekki aukist að sama skapi þannig að þetta er í kringum 45% í dag.

Annað vandamál sem tengist þessu er að okkar vantar að koma á samningi og við þurfum að finna lausnir á því með hvaða hætti á að skipuleggja þetta. Ég bind enn þá vonir við að við náum því á þessu ári. Bætt var aftur inn í fjárlögin peningum, það var búið að skera niður vegna þess að fjármagnið var ekki nýtt að fullu, 300 millj. kr. voru skornar niður en 150 var skilað til baka til að reyna áfram að koma þessu eitthvað áleiðis. Samt er verið að eyða hátt á annan milljarð í tannheilsu vegna greiðslu til tannlækna.

Hinn þátturinn sem er afar veikur er upplýsingagjöfin, þ.e. öflun upplýsinga um hvernig ástandið er. Það sem við tölum oft um þegar við berum okkur saman við aðra, og gerðum m.a. í skýrslu sem ég nefndi áðan sem var um ástandið í heilbrigðismálum, er að ekki vantar tannlækna á Íslandi. Þeir eru fleiri hér en víðast annars staðar fyrir hverja þúsund íbúa. Aftur á móti er ástandið lakara en þá erum við að vísu oft að vitna í landsrannsókn á tannheilsu barna og unglinga á Íslandi sem var gerð skólaárið 2004–2005 og er orðin býsna gömul, sex ára gömul. Þetta var svokölluð MUNNÍS-rannsókn. Hún var gerð að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins á þeim tíma. Þá var skoðað stórt slembiúrtak allra sex, tólf og fimmtán ára barna á Íslandi. Jafnt hlutfall barna var af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í þessu úrtaki og rannsóknin var óháð því hvort börn sóttu tannlæknisþjónustu eður ei.

Í rannsókninni kom í ljós á þessum tíma að tannátustuðull eða fjöldi skemmdra, tapaðra eða fylltra fullorðinstanna tólf ára barna var að meðaltali 2,1. Þetta var hærra en búist hafði verið við því að tannátustuðullinn hafði lækkað hratt í þremur undangengnum landsrannsóknum þar á undan sem sýndu tannátustuðul 1,5 árið 1996, 3,4 árið 1991 og 6,6 árið 1986 að meðaltali hjá tólf ára börnum. Það er mjög brýnt að endurtaka þessa rannsókn og fá nýjustu upplýsingar hvað þetta varðar.

Eini samningurinn sem hefur verið í gangi en féll út núna um áramótin var forvarnasamningurinn þar sem boðið var upp á ókeypis forvarnir fyrir ákveðna aldurshópar. Sá samningur er í gildi áfram en nokkrir þeirra sem unnu samkvæmt honum fyrir heilbrigðisyfirvöld hafa sagt sig af þeim samningi en ég vona að sá hópur sem eftir er geti annað því verkefni.

Samið var við tannlækna um samræmda skráningu tannheilsu í tengslum við forvarnaeftirlitið fyrir þriggja og tólf ára börn 1. júní 2007 og í samantekt á greiningu 228 tannlækna á tannheilsu tólf ára barna á tólf mánaða tímabili frá 2007–2008 kom í ljós mikill breytileiki milli tannlækna og landsvæða. Að meðaltali var tannátustuðullinn 1,6 en í meðaltali landsvæða var hann á milli þess að vera 1,1 upp í 3,2. Það er augljóst að við þurfum að gera miklu betur og ég tel mikilvægt að þessi rannsókn, MUNNÍS-rannsókn, verði framkvæmd að nýju.

Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er auðvitað mjög mikilvægt líka að menn líti á þetta sem samfélagslegt viðfangsefni, að við lítum ekki bara á tannlækningar sem slíkar heldur skoðum þær sem forvarnir líka, því að hugmyndin er ekki bara sú að bæta viðgerðir heldur að reyna að forðast það að tennur skemmist og þær endist þannig út ævina. Þar er ábyrgð foreldra og umhverfis afar mikil og tengist auðvitað þeirri sykurumræðu sem við tókum áðan af öðru tilefni.

Ég vona að þetta svari spurningunum að einhverju leyti en ég undirstrika að hér er verk að vinna. Vonandi getum við sem alþingismenn fundið lausnir og þrýst á að hér verði bætt úr þannig að tannheilsa barna og unglinga og raunar fleiri verði betri og þjónustan verði bætt á Íslandi.