140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

neysla barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.

294. mál
[18:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mjög brýn. Ég veit að Danir hafa tekið sig til og eru farnir að vara við neyslu barna og unglinga á þessum orkudrykkjum. Austurríki hefur skilgreint innihaldsefni og hámark þeirra í orkudrykkjum en eftir því sem ég best veit eru hvorki til samræmdar reglur um hvaða efni þessir drykkir megi innihalda né í hvaða magni.

Samkvæmt þessari skýrslu, sem dv.is benti á, er ástæða til að ætla að við þurfum að vara börnin okkar við orkudrykkjum af þessu tagi. Ég held að við höfum tækifæri til að vera ekki neðst á blaði í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Við getum verið þarna fremst í flokki og ég held að við höfum tæki og tól til að rannsaka hvaða áhrif þessir drykkir hafa á heilsu barna og unglinga, og skoða þær skýrslur sem hafa verið gefnar út. Höfundar skýrslunnar í læknatímaritinu Pediatrics vara börn og unglinga við því að drekka of mikið af þessum orkudrykkjum.

Ég fagna því að nú er þessi umræða komin af stað. Mér skilst að þetta sé í fyrsta skipti sem þessi umræða sé tekin í sölum Alþingis og vonast til að velferðarráðherra fylgi henni vel eftir.