140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

neysla barna og unglinga á svokölluðum orkudrykkjum.

294. mál
[18:11]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar eru komnar fram ágætisábendingar og hugmyndir um það hvernig taka megi á málum. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á samvinnu skólayfirvalda um skólareglur, að menn hefðu þessar vörur ekki á boðstólum í skólunum. Það er kannski það sem við vorum að tala um áðan í sambandi við ýmislegt annað að hægt er að ráða vöruúrvali í skólum og þar hafa orðið miklar breytingar, sætindavörur hafa verið fjarlægðar og hollustudrykkir í boði, en þá þarf einmitt að gæta þess að slíkir orkudrykkir komi ekki í staðinn. Sama gildir um íþróttahús og annað slíkt. Það er rétt, sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði, að takmörkun á aðgengi og fræðsla eru mikilvæg í þessu samhengi.

Málshefjandi, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, bendir einnig á að við þurfum að fylgjast með og reyna að rannsaka áhrifin, ekki síður en að rannsaka neysluna. Kannski er hugsanlegt að bæta inn í þá árlegu könnun sem Ráðgjöf og greining vinnur fyrir yfirvöld um hagi ungs fólks — gríðarlega mikilvægar kannanir sem eru orðnar langtímakannanir — að farið verði að kanna neyslu á orkudrykkjum þar undir. Þá er hægt að skoða betur hvert umfangið er. Um leið má kanna innan heilbrigðiskerfisins hvort komið hafa upp mörg tilfelli af þeim toga sem var til umfjöllunar í fjölmiðlum, þar sem unglingur hafði leitað til heilbrigðisstofnunar út af vanlíðun vegna neyslu slíkra drykkja. Það er mjög gott að þetta kemur til umræðu og við munum beina því til landlæknisembættisins að fylgjast vel með þróun þessara mála.