140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

lækkun fasteignaskulda hjá Íbúðalánasjóði.

338. mál
[18:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Málefni heimilanna hafa mikið verið rædd á Alþingi. Í upphafi síðasta árs var gert samkomulag milli fjármálastofnana og ríkisvaldsins um tiltekna meðferð á skuldugum heimilum sem var að hluta til leidd í lög og hefur oft verið kennd við hina svokölluðu 110%-leið.

Í fyrra ákvað Landsbanki Íslands sem er að langmestu leyti í eigu ríkisins að fara að nokkru leyti sínar eigin leiðir. Bankinn stóð vitaskuld að þessu samkomulagi ríkisvaldsins við fjármálafyrirtækin en kynnti hins vegar sérstaka leið sem oft hefur verið kölluð landsbankaleiðin og felur í sér aðferð sem er sannarlega ívilnandi fyrir þá sem skulda íbúðalán í þeim banka. Meginatriði leiðar Landsbankans er að miða við fasteignamat þegar verið er að verðmeta viðkomandi eign en almenna reglan hefur hins vegar verið að miða við markaðsverð. Þetta út af fyrir sig gerir það að verkum, sé leið Landsbankans farin, að stærri hluti lánanna almennt talað verður afskrifaður. Síðan lagði Landsbankinn enn fremur upp með að veita sérstakan vaxtaafslátt, 20% lækkun vaxta, af þeim vöxtum sem greiddir hafa verið á tímabilinu 31. desember 2008 til aprílloka 2011. Hvernig sem á málin er litið er þessi leið Landsbankans betri fyrir þann sem skuldar en kostnaðarsamari fyrir bankann.

Núna fyrir helgi kynnti Arion banki sömuleiðis nýjar leiðir þar sem gert var ráð fyrir að veita skilvísum greiðendum afslátt sem þýðir að að meðaltali mun greiðsla vegna íbúðalána nema 125 þús. kr. og greiðsla vegna yfirdráttarlána 13 þús. kr. 33 þús. viðskiptavinir bankans fengu greitt til baka á föstudaginn var og fengu þeir til baka 2,5 milljarða kr.

Allt þetta varpar kastljósi á þá stöðu sem Íbúðalánasjóður er í. Hann hefur ekki þessar heimildir. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort eitthvert réttlæti sé í því að ríkisbankinn Landsbanki fari fram með einum hætti og Íbúðalánasjóður með öðrum. Þetta skapar ójafnræði milli einstakra skuldara og getur valdið ójafnræði milli byggðarlaga þar sem Íbúðalánasjóður er til dæmis hlutfallslega miklu stærri lánveitandi, að ég hygg, á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þegar þessi mál voru rædd á sínum tíma, ég tók þau upp í þinginu, kom til dæmis fram hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar að hann teldi að það væri sjálfsagður hlutur að ríkið sem (Forseti hringir.) aðaleigandi Landsbankans og Íbúðalánasjóðs byði sambærileg úrræði og úrlausnir fyrir skuldara, hvort sem þeir væru hjá Landsbankanum eða Íbúðalánasjóði.