140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

lækkun fasteignaskulda hjá Íbúðalánasjóði.

338. mál
[18:29]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson beindi til mín þeirri munnlegu fyrirspurn hver kostnaður Íbúðalánasjóðs yrði — þannig fékk ég fyrirspurnina fyrir umræðuna — ef sjóðurinn færi sömu leið og Landsbankinn við lækkun fasteignaskulda og með endurgreiðslu 20% vaxta og hvort ég hyggist beita mér fyrir því að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði verði jafnsettir þeim sem tóku lán til fasteignakaupa hjá ríkisbankanum Landsbankanum.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að taka fram að Landsbankinn er sjálfstæð stofnun í meirihlutaeigu ríkisins. Íbúðalánasjóður er aftur á móti ríkisstofnun. Á þessu er veigamikill munur. Vandamál Íbúðalánasjóðs er því vandamál skattgreiðenda og það verður að hafa í huga þegar afskriftir Íbúðalánasjóðs eru skoðaðar.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því með hvaða hætti málum var hagað varðandi Landsbankann þegar menn stofnuðu Bankasýsluna, skipuðu þar til verka o.s.frv. Ríkið leggur ekki Landsbankanum til neinn pening í því umhverfi sem hann býr sér til. Aftur á móti verður hver einasta króna sem fer úr Íbúðalánasjóði að greiðast af skattgreiðendum nema ef hægt er að ná samkomulagi við helstu lánveitendur sem eru lífeyrissjóðirnir.

Það er rétt sem hv. þingmaður rakti hér. Það var í desember 2010 sem samkomulag var gert milli fjármálastofnana um að fara svokallaða 110%-leið. Til að rifja það upp þá átti hún að vera frá 1. janúar 2011 þegar fasteignamat lækkaði einmitt um um það bil 10%. Það mál fór í gegnum þingið samkvæmt reglum sem þar voru settar og reglur þingsins voru afar skýrar. Rætt var um hvort miða ætti beint við fasteignamat og niðurstaðan varð sú að taka fasteignamat eða matsverð, eftir því hvort væri hærra. Ég verð að viðurkenna að það kom mér mjög á óvart að niðurstaðan úr þeirri úttekt á vegum Íbúðalánasjóðs leiddi til þess með alla vega útreikningum og krossathugunum og hvernig sem það var gert, það var gríðarlega vönduð vinna á bak við það, að matsverðið var að meðaltali 10% hærra en fasteignaverðið.

Varðandi hvað það mundi kosta að fara landsbankaleiðina þá hafði Íbúðalánasjóður nýlega samþykkt 2.824 umsóknir vegna 110%-leiðarinnar og nema afskriftir sjóðsins þar að lútandi rúmum 7,2 milljörðum kr. Meðalafskrift á hverja samþykkta umsókn er um 2,4 millj. kr. Íbúðalánasjóður hefur þar með afgreitt allar þær umsóknir sem borist hafa sjóðnum og hafði reyndar gert það í lok nóvember sl. fyrir utan þær umsóknir sem ekki er unnt að afgreiða sökum skorts á upplýsingum. Þær umsóknir eru um það bil 140 talsins. Þegar afgreiðslu umsókna lýkur má gera ráð fyrir að heildarkostnaður Íbúðalánasjóðs vegna 110%-leiðarinnar verði um 7,5 milljarðar kr. Ef miðað er við fasteignamat í stað verðmats við úrvinnslu umsókna hækkar heildarkostnaður Íbúðalánasjóðs úr 7,5 milljörðum kr. í tæplega 19 milljarða. Hér er reiknað með upphaflegum umsóknafjölda og óbreyttum forsendum varðandi frádrátt aðfararhæfra eigna en það var líka eitt af því sem var öðruvísi hjá Landsbankanum.

Ef farið yrði í þessa forsendubreytingu tel ég ljóst að líta þyrfti á úrræðið sem nýtt og stæði þá nýtt úrræði öllum lántakendum Íbúðalánasjóðs til boða. Það þyrfti sem sagt að hefja hringrásina að nýju því að margir af þeim sem ekki sóttu um hefðu gert það ef það hefði verið miðað við annað verð. Taka þarf því tillit til þeirra sem ekki sóttu um úrræði undir upphaflegum forsendum en 3.950 heimili sóttu ekki um afskriftir þrátt fyrir að vera gjaldgeng sökum skuldastöðu. Ef reiknað er með að þessi heimili sæki um má gera ráð fyrir niðurfærslu lána upp á 8,8 milljarða kr. Þá er reiknað með að um 70% þessara heimila fái niðurgreiðslur um að meðaltali 3,3 millj. kr.

Afskriftir Íbúðalánasjóðs vegna 110%-leiðar gætu farið úr því að vera 7,5 milljarðar kr. í 27,7 milljarða kr. Menn verða að hafa í huga að það yrði væntanlega að greiðast úr ríkissjóði. Við þessar tölur bætist endurgreiðsla 20% vaxta skilvísra viðskiptavina sjóðsins og gæti sú fjárhæð legið á bilinu 8–9 milljarðar kr. fyrir umræddan tíma. Við útreikninginn var horft til einstaklinga sem ekki hafa farið yfir 90 daga vanskil á tímabilinu líkt og Landsbankinn gerði. Því er ljóst, hæstv. forseti, að heildarkostnaður Íbúðalánasjóðs vegna þessara aðgerða gæti numið rúmum 35 milljörðum kr.

Þetta eru gríðarlegir fjármunir og þótt þeir fjármunir fari í niðurfærslu lána hjá einstaklingum er ljóst að þeir þurfa að koma annars staðar frá, annaðhvort eins og ég sagði frá skattgreiðendum eða beint í gegnum ríkissjóð. Sem sjálfstæðu fyrirtæki er Landsbankanum í sjálfsvald sett að ganga lengra en samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði sagði til um. Íbúðalánasjóður er aftur á móti bundinn þeim lögum sem Alþingi setur honum og fékk það mál góða umfjöllun á Alþingi í fyrravetur, m.a. í hv. félags- og tryggingamálanefnd, og varð niðurstaða nefndarmanna sú að fara þá leið sem lög segja til um og Íbúðalánasjóður hefur (Forseti hringir.) heimild til. Eins og ég hef áður sagt hefur ekki staðið til að koma með lagabreytingu en málið er engu að síður til skoðunar, sérstaklega út af lánsveðum og ýmsu öðru. Ég kem betur að því í síðara svari mínu.