140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

lækkun fasteignaskulda hjá Íbúðalánasjóði.

338. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög greinargóð svör. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir því í upphafi að talsverður kostnaður hlytist af þessu fyrir Íbúðalánasjóð.

En snúum þá málinu við. Með því að þessi kostnaður er upp á 35 milljarða kr., síðan þarf auðvitað að draga það frá sem þegar er búið að afskrifa, erum við líka að segja að ef þessir lántakendur sem sóttu sín lán til Íbúðalánasjóðs á sínum tíma hefðu verið svo gæfusamir að hafa sótt um þessi lán hjá Landsbanka Íslands sem að 85% eru í eigu ríkisins væru þeir 35 milljörðum betur settir. Það er sú staðreynd sem er svo himinhrópandi að það er algjörlega óhjákvæmilegt að takast með einhverjum hætti á við þetta mál.

Það var mikið talað um þegar menn voru að fara þessa 110%-leið að hugsunin væri sú að reyna að búa til eitthvert almennt umhverfi sem menn færu inn í og ef það gengi eftir yrði ekki mikið ósamræmi milli lánastofnana. Nú þekkjum við mörg dæmi þar sem menn hafa sagt að mikið ósamræmi sé þar á milli. Eins og þetta mál er núna að þróast, þar sem annars vegar ríkisbankinn Landsbanki Íslands, sem sannarlega fær ekki peninga út úr ríkissjóði en er engu að síður 85% í eigu ríkisins, býður kjör sem mundu þýða 35 milljörðum betri afkomu eða stöðu hjá lántakendum Íbúðalánasjóðs og Arion banki sem er að búa til sitt prógramm upp á 2,5 milljarða kr., er staðan orðin sú að það er verst af öllu fyrir skuldugt fólk að skulda Íbúðalánasjóði. Þá spyr ég sömu spurninganna og hv. þm. Helgi Hjörvar og hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason: Hvar er réttlætingin fyrir Íbúðalánasjóði? Við trúðum því að Íbúðalánasjóður væri í þeirri stöðu að geta alltaf boðið best, hann væri skjól fyrir þá sem tækju þar lán. Núna kemur allt í einu á daginn að það er langverst að vera skuldari hjá Íbúðalánasjóði. (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóður rukkar 35 milljörðum meira til baka af þeim lánum sem hann hefur veitt en menn hefðu þurft að lúta ef lánin hefðu verið veitt úr Landsbanka Íslands.