140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

heilsufarsmælingar í Skutulsfirði.

448. mál
[18:48]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ágætt að hafa farið í gegnum þessa umræðu og einmitt vakið athygli á því að þarna urðu ekki neinar alvarlegar afleiðingar þótt þetta sé auðvitað alvarleg áminning um að það þurfi að fylgjast með mörgum þeirra lausna sem við grípum til. Hvort sem verið er að brenna sorp eða gera eitthvað annað er brýnt að við fylgjumst með árangrinum af þeim breytingum sem við gerum á hverjum tíma.

Menn hafa oft og tíðum horft til ákveðinna patentlausna og sagt að það yrði að leysa þetta með einhverjum ákveðnum hætti en ekki gætt að því hvaða aðrar afleiðingar kæmu þar í staðinn.

Það er ástæða til að þakka frumkvæði sóttvarnalæknis og Háskóla Íslands við vinnu þessarar rannsóknar. Það er til fyrirmyndar því að almennt þurfum við einmitt að vinna fleiri rannsóknir og fylgjast betur með afleiðingum ýmissa þeirra inngripa sem við erum að gera í okkar náttúru eða umhverfi þannig að við getum fjallað um þessi mál með góðum upplýsingum og góðum rannsóknum. Það er það sem skiptir mestu máli. Það er erfitt að fá á sig mál eins og hafa komið ítrekað upp undanfarið þegar við fáum í bakið hluti þar sem menn hafa brugðist, kannski framkvæmdinni fyrst og fremst vegna þess að þar er ábyrgðin númer eitt, tvö og þrjú, og síðan hjá eftirlitsstofnunum okkar sem ekki hafa staðið vaktina til þess að bjarga málum.

Ég vona að þetta leiði allt saman til þess að við stöndum okkur betur í þessum málaflokkum og þá er vel. Eins og ég segi hefur í þessu máli sem betur fer skaðinn ekki orðið eins alvarlegur og menn óttuðust á tímabili.