140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

um húsnæðisstefnu.

450. mál
[18:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í apríl 2011 skilaði samráðshópur um húsnæðisstefnu velferðarráðherra skýrslu um tillögur um aðgerðir á sviði húsnæðismála. Ég sat í þeim hópi sem fulltrúi þingflokks framsóknarmanna.

Í skýrslunni sem ég stóð að hvað varðar meirihlutaálitið — ég skilaði ekki sérstöku áliti — voru markmið húsnæðisstefnu skilgreind og lagðar fram margvíslegar tillögur um hvernig stjórnvöld gætu náð þeim. Það var einnig skilgreint hverjir ættu að bera ábyrgð á útfærslu og framkvæmd tillagna, við hverja ætti að eiga samráð og hvenær þær ættu að koma til framkvæmda. Þar var lagt til að stjórnvöld mörkuðu sér húsnæðisstefnu, breytingar yrðu gerðar á vaxta- og húsaleigubótakerfinu. Á móti yrði sérstök húsnæðisáætlun, hlutverk ríkisins á húsnæðislánamarkaði yrði skilgreint upp á nýtt, framboð á leigu- og búseturéttaríbúðum aukið sem og upplýsingaöflun og miðlun almennt um húsnæðismál.

Eins og kemur fram má sjá að megintillögur samráðshópsins voru annars vegar breytingar á húsnæðisbótakerfinu og fjölgun búsetuforma. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. velferðarráðherra um hvernig unnið hafi verið úr niðurstöðum og tillögum starfshópsins, sérstaklega hvað varðar fjölgun búseturéttaríbúða og leiguíbúða og breytingar á húsnæðisbótakerfinu sem voru helstu tillögur hópsins.

Hópurinn lagði til að í staðinn fyrir vaxtabætur á vegum ríkisins og húsaleigubætur á vegum sveitarfélaga mundi ríkið greiða almennan húsnæðisstuðning óháðan búsetuformi og sveitarfélögin mundu einbeita sér frekar að sérstökum húsnæðisstuðningi vegna erfiðra félagslegra aðstæðna.

Í skýrslu hópsins var líka bent á að stuðningur hins opinbera hefði verið mun meiri við fólk í eigin húsnæði en við fólk sem er á leigumarkaði eða í búsetukerfinu. Því vil ég bæta við spurningu mína: Er vinna í gangi varðandi útfærslu á þessu? Hyggst ráðherrann eða ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um breytingar á vaxtabótakerfinu? Hefur verið haft samráð við sveitarfélögin um breytingarnar og þá hvers konar samráð?

Við lögðum einnig til að opinberir aðilar mundu vinna að því að efla almennan markað með leigu- og búseturéttaríbúðum. Hlutfall heimila í langtímaleiguhúsnæði og búseturéttaríbúðum er lægra en víðast í Evrópu og Norðurlöndunum. Íslensk heimili eru að sama skapi mun skuldsettari en heimili í nágrannalöndum okkar. Til að fjölga búsetuformum var nefnt að bæta þyrfti starfsumhverfið fyrir þessa tegund af starfsemi. Því ætti að skoða þinglýstar ívilnanir sveitarfélaga til húsnæðisfélaga, stofnstyrki og tímabundinn opinberan stuðning til að treysta rekstrargrundvöll félaganna. Einnig þyrfti að gera breytingar á lögum um rekstrar- og skattumhverfi rekstraraðila og fjarfestingarsjóða sem sérhæfa sig í fjárfestingum á fasteignamarkaði og gera breytingar á lögum og lánveitingum (Forseti hringir.) íbúðalánasjóða til þeirra. Hvað þetta varðar er komin af stað vinna við að bæta starfsumhverfi leigu- og búseturéttarfélaga. Hyggst ráðherrann leggja fram frumvarp í þeim tilgangi? Hefur verið haft samráð við sveitarfélögin um þetta mál?