140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

um húsnæðisstefnu.

450. mál
[18:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég tel afar mikilvægt að fá tækifæri til að fara yfir hver staðan er á þessari vinnu. Það var þarna hópur sem lauk vinnu í apríl á síðasta ári, eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda, og í beinu framhaldi af þeirri skýrslu hefur síðan verið mjög skipuleg vinna í fimm hópum þar undir. Ég skal fara yfir þetta í svari mínu.

Það er rétt sem hv. þingmaður gerði grein fyrir: Í skýrslunni eru markmið húsnæðisstefnu skilgreind og lagðar fram tillögur um hvernig stjórnvöld geti náð þeim. Helstu tillögurnar voru einmitt upptaka sérstakra húsnæðisbóta og að hið opinbera stuðli að auknu framboði á leigu- og búseturéttaríbúðum og að ríkisstjórnin innleiði húsnæðisáætlun með fjölbreytni að leiðarljósi til að mæta þörfum ólíkra hópa.

Samráðshópurinn lagði sérstaka áherslu á að forsendan fyrir farsælli stefnumótun í húsnæðismálum væru greinargóðar upplýsingar um stöðu og horfur í húsnæðismálum landsmanna þannig að ekki færi af stað samkeppni líkt og gerðist fyrir hrun þar sem menn voru að byggja óhóflega á ákveðnum svæðum á sama tíma og húsnæði vantaði annars staðar.

Aðgerðir sem farið er í á grundvelli húsnæðisstefnu þurfa að hafa skýr markmið og meta þarf áhrif þeirra í víðu samhengi. Réttar upplýsingar eru forsenda þess að hægt sé að taka faglegar ákvarðanir. Í skýrslunni er lögð sérstök áhersla á að skilgreina betur upplýsingaþörfina, safna upplýsingum, greina þær og birta opinberlega. Mikilvægt er að góð greining á húsnæðismarkaði liggi fyrir á hverjum tíma. Þetta var það sem kom út úr þessum hópi í apríl sl., hópi sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir leiddi.

Í kjölfar skýrslu samráðshópsins hófst undirbúningur í velferðarráðuneytinu að úrvinnslu á tillögum um verkefnahópa og verklag. Á haustmánuðum voru skipaðir fimm vinnuhópar í samræmi við tillögur samráðshópsins um verkþætti um mótun nýrrar húsnæðisstefnu. Starf vinnuhópanna gengur vel og liggur fyrir tímasett verkáætlun. Á vegum vinnuhópanna fer fram víðtækt samráð og samstarf við aðila sem vinna að húsnæðismálum með einum eða öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Ég mun gera stutta grein fyrir stöðu þessara verkefna. Vinnuhópur sem fékk það hlutverk að efla og samræma öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál mun skila skýrslu með tillögum sínum á næstu dögum. Í samræmi við hlutverk sitt hefur vinnuhópurinn haft samráð við opinberar stofnanir og samtök hagsmunaaðila á húsnæðismarkaði um skilgreiningu á nauðsynlegum gögnum og upplýsingum sem stjórnvöld eiga að afla reglubundið og birta opinberlega. Vinnuhópnum var meðal annars ætlað að gera tillögur um samræmda verkaskiptingu opinberra stofnana við upplýsingaöflun og greiningu á húsnæðismarkaðnum.

Ég hef kynnt mér störf þessara hópa og fékk tækifæri til að heyra stöðuúttekt hjá þeim nýlega og fá upplýsingar um helstu niðurstöður þeirra. Í þeim felst meðal annars að mikið sé fyrirliggjandi af upplýsingum um húsnæðismál en helst skorti úrvinnslu þeirra gagna sem eru fyrir hendi og samræmingu og birtingu á þeim.

Það var einnig mat vinnuhópsins að núverandi umgjörð um opinbera upplýsingaöflun á húsnæðismarkaði geti skilað viðunandi niðurstöðum, það sé mikilvæg forsenda til að geta unnið áfram með málið. Þá er einkum átt við gerð manntals á vegum Hagstofunnar, gagnagrunns um skipulagsáætlanir sveitarfélaga á vegum Skipulagsstofnunar, gagnasafn Mannvirkjastofnunar um mannvirki og mannvirkjagerð, gagnagrunn um skulda- og eignastöðu heimilanna sem nú hefur verið ákveðið að setja undir Hagstofu Íslands. Ein af megintillögum vinnuhópsins er að Íbúðalánasjóði verði falið að gera þessar greiningar á húsnæðismarkaðnum að minnsta kosti einu sinni á ári og að sú greining, ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum um húsnæðismál, verði birt opinberlega á aðgengilegan hátt.

Vinnuhópur sem skipaður var til að endurskoða rekstrar- og skattumhverfi húsnæðis- og leigufélaga mun skila tillögum 1. mars næstkomandi. Vinnuhópnum er ætlað að endurskoða rekstrar- og skattumhverfi húsnæðisfélaga og húsnæðissamvinnufélaga, fasteignasjóða og einstaklinga sem vilja leigja út íbúðir og gera tillögur um breytingar ef ástæða þykir til. Meðal þess sem hópnum er ætlað að skoða sérstaklega er hver aðkoma hins opinbera að húsnæðisfélögum geti verið án beinnar aðkomu, svo sem með niðurgreiðslum á vöxtum. Gert er ráð fyrir að í þessu starfi sé tekið mið af vinnu velferðarráðuneytisins við endurskoðun húsaleigulaga sem verið hefur í gangi. Rætt hefur verið við fjölmarga hagsmunaaðila, forsvarsmenn húsnæðis- og leigufélaga, sveitarfélög, félagasamtök leigumiðlara, landssamband lífeyrissjóða og fleiri aðila sem hafa sérþekkingu á málefninu.

Vinnuhópi sem ætlað var að vinna að undirbúningi þess að taka upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta mun skila tillögum 30. apríl næstkomandi en í skipunarbréfinu kemur fram að í samræmdri skýrslu samráðshópsins skuli miða við að markmið húsnæðisbóta verði að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma og stuðla að því að heimilin eigi val á milli leigu, búseturéttar og eignaríbúða. Sú vinna hefur gengið mjög vel og er í fullum gangi. Miðað er við að slíkt kerfi, ef samstaða næst um það, taki gildi um næstu áramót með lagabreytingum á haustþingi. Þessu verkefni hefur vinnuhópurinn þegar skilað af sér og voru skerðingarmörk húsnæðisbóta — við fylgdumst með því, við hækkuðum þau í fjárlögum, það var ein af athugasemdunum í tengslum við þessa vinnu að ástæða væri til að hækka viðmiðunarmörkin varðandi húsaleigubætur og það var gert um áramótin um 10%. En ég kem inn á fleiri atriði í síðari hluta svars míns.