140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera skuldastöðu heimilanna að umræðuefni. Nokkrir dagar eru síðan Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lagði fram skýrslu sína um möguleika bankakerfisins til að skrifa niður skuldir almennings.

Frú forseti. Ég tel að hér sé byrjað á röngum enda. Fyrsta spurningin sem við eigum að spyrja er: Hvert er skuldaþol heimilanna? Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað, þarf að svara því hvað hægt er að gera. Með því að byrja að spyrja sig að því hversu mikið bankarnir geta skrifað niður eru menn í raun og veru að segja eftirfarandi: Fyrst er skjaldborgin um bankana og síðan um heimilin. Okkur vantar betri upplýsingar og nákvæmari um hver staða heimilanna er hvað varðar skuldaþol þeirra. Ef við náum ekki betri árangri í þessu, frú forseti, munum við ekki ná neinni sátt í samfélagi okkar. Það er engin spurning í mínum huga að það fyrirkomulag sem nú er á þessum málum og sú tortryggni sem uppi er, er stórkostlegt vandamál en vandamálið verður enn stærra þegar horft er fram á við, ef íslensk heimili eru orðin svo skuldum vafin að þau nái sér ekki upp þannig að neysla þeirra verði eðlileg og almenningur geti lifað eðlilegu lífi.

Fyrsta spurning er, frú forseti: Hvert er skuldaþol heimilanna? Næsta spurning er: Hver er geta bankanna til að skrifa niður skuldir og hvað kostar það? Þannig verður að nálgast vandamálið. Þetta er spurning um skjaldborg heimilanna eða skjaldborg bankanna, skjaldborg fólksins eða skjaldborg fjármagnsins. Nú stendur þannig á að svara þarf þessari spurningu miklu betur en gert hefur verið. Núverandi ástand, frú forseti, er óþolandi.