140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst koma því á framfæri vegna umræðu um rannsókn á einkavæðingu bankanna að þingflokkur framsóknarmanna flutti tillögu um að rannsaka einkavæðinguna og einnig síðari einkavæðingu líka ásamt fleiru. Við munum að sjálfsögðu endurflytja þá tillögu því að við viljum láta rannsaka þetta ferli allt saman, allt ferlið frá A til Ö fram á daginn í dag, fram á þessa mínútu og það skal verða gert.

Varðandi skuldir heimilanna sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á, má ekki gleyma því að við fengum í þingið fyrir nokkru síðan skýrslu fjármálaráðherra þar sem staðfest var að ríkisstjórnin sló skjaldborg um bankana en ekki heimilin. Ég velti fyrir mér, frú forseti: Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur líklega talað manna mest um afnám verðtryggingar, hefur haft tækifæri til í ríkisstjórn í þrjú ár að gera eitthvað í því en hefur ekkert gert? Hins vegar koma þingmenn Samfylkingarinnar hingað upp og tala um að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna nema með því að skipta um gjaldmiðil. Getur það verið, frú forseti, að það sé nýtilkomið að skipta þurfi um gjaldmiðil til að afnema verðtrygginguna? Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki fyrr eða í fyrri ræðum nefnt það sem eina af forsendum fyrir því að afnema hana?

Frú forseti. Annað vekur athygli mína. Nefnd um endurskoðun á peningastefnu og gjaldmiðlamálum hefur ekki enn komið saman. Nefndin hefur ekki komið saman. Búið er að kalla saman nefndina um gjaldeyrishöftin en hin hefur ekki tekið til starfa. Því hlýt ég að velta því fyrir mér, frú forseti, hvort það geti verið að það þjóni hagsmunum ríkisstjórnarinnar að kalla ekki saman þessa nefnd og halda því á lofti að verðtrygging verði eingöngu afnumin með því að ganga í Evrópusambandið og skipta um gjaldmiðil. Getur verið, frú forseti, að ríkisstjórnin sé einfaldlega að láta heimilin í landinu kveljast í verðtryggingunni þangað til markmiðum með Evrópusambandið og evru er náð? Við hljótum að spyrja því að rökin fyrir þessu eru algerlega fáránleg og ekki til staðar.