140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil á sama hátt og hv. þm. Jón Gunnarsson fjalla um fjárfestingar í samfélagi okkar en út frá öðrum forsendum.

Þannig er mál með vexti að við samþykktum í þinginu árið 2010 ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og fórum þar út úr því fyrirkomulagi sem hafði tíðkast um áratugaskeið að klæðskerasauma fjárfestingarsamninga utan um einstök verkefni. Núna höfum við almenna rammalöggjöf með skýrum leikreglum um almennar ívilnanir sem öllum standa til boða sem uppfylla tiltekin skilyrði. Síðan hafa fjórir fjárfestingarsamningar verið gerðir á þessu rúma ári sem liðið er; um gagnaver í Reykjanesbæ, aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði, kísilmálmverksmiðju sem vonandi verður staðsett fyrir norðan, og kísilver í Helguvík. Áætlað verðmæti þessara verkefna er 130 milljarðar. Þau munu skila 430 framtíðarstörfum og að auki 400 ársverkum á framkvæmdatíma.

Það ánægjulega er að þessu til viðbótar liggja nú fyrir tíu umsóknir um slíka fjárfestingarsamninga. Fjölbreytni þeirra verkefna er sérstaklega mikil. Það má nefna sem dæmi verksmiðju sem endurvinnur úrgang, einkum timbur og plast, vatnsátöppunarverksmiðju á Vesturlandi, fræðslu- og skemmtigarð í Reykjavík sem nýtir norræna goðafræði, álkaplaverksmiðju fyrir austan, stækkun aflþynnuverksmiðjunnar á Norðurlandi, stálendurvinnslu á Vesturlandi, fiskeldi á Suðurnesjum og síðast en ekki síst ferðaþjónustuverkefni sem hefur mikið verið í umræðunni og snýst um uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum og í Reykjavík. Það mál er nú komið í farveg sem er mun líklegri til að skila farsælli niðurstöðu en sú leið sem reynd var um daginn. Hún felur ekki sér kaup á landi heldur leigusamning sem á sér mörg fordæmi hér á landi á undanförnum árum og áratugum.

Þessar umsóknir eru mislangt á veg komnar. Við getum ekkert gefið okkur um niðurstöðuna en umfang verkefnanna er upp á tæpa 70 milljarða kr. og þau mundu leiða til þess að rúmlega 1.300 ný störf yrðu til í landinu og (Forseti hringir.) allt að 1.400 ársverk til viðbótar á framkvæmdatímanum. Það er prýðilega margt í kortunum varðandi fjárfestingar og fjölbreytnin miklu meiri en við höfum séð í fjárfestingum erlendra aðila á undanförnum áratugum.