140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hérna upp og gleðjast yfir því sem hv. þm. Skúli Helgason talaði um, þær fjárfestingar sem hafa verið og þann áhuga sem er á Íslandi. Það er einmitt staðreyndin að tækifærin eru gríðarleg og sú gagnrýni sem við höfum verið með á núverandi ríkisstjórn er að hún hafi ekki nýtt tækifærin og það sé seinagangur á öllu. Til að mynda var hér lögð fram samgönguáætlun, ákaflega metnaðarlítið plagg, einu ári of seint, og rammaáætlun sem mig langar aðeins að koma inn á er komin að minnsta kosti einu ári á eftir áætlun, hið minnsta. Hér var ágætisumræða fyrir viku þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði hæstv. umhverfisráðherra og það komu engin skýr svör frá umhverfisráðherra. Í fréttum í dag, í fjölmiðlum, stendur að stjórnarflokkarnir deili um rammaáætlun, stöku þingmenn vilji fleiri virkjanir, og enn bóli ekkert á rammaáætlun um flokkun virkjanakosta sem til stóð að leggja fram fyrir jólahlé þingsins. Á atvinnuveganefndarfundi í morgun var þetta rætt og þar komu heldur ekki fram neinar nýjar hugmyndir eða tillögur. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er minnihlutastjórn en í hinu margfræga og margumtalaða norræna velferðarmódeli eru það einmitt minnihlutastjórnir sem ganga til liðs og tala við stjórnarandstöðuna og reyna að fá 70–80% þingheims og þjóðar á bak við stór mál, eins og til dæmis rammaáætlun. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geri það. Eina sem stendur í vegi fyrir því er þroskaleysi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. allsherjarráðherra, fyrrverandi [Hlátur í þingsal.] fjármálaráðherra, einfaldlega vegna þess og kannski þrátt fyrir þeirra löngu starfsreynslu á þingi, eða kannski einmitt vegna þeirrar starfsreynslu hafa þau ekki þroska til að fara inn í þetta ferli sem þingið á að vera tilbúið til. Mig langar að koma hér að tillögu um að við setjumst yfir þetta (Forseti hringir.) og reynum að afgreiða rammaáætlunina, klára hana sem fyrst. Það er ábyggilega meiri hluti þings fyrir því.