140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að tæpa á máli sem tengist mörgu af því sem sagt hefur verið hér fyrr í dag en það er hin klassíska víxlverkun hækkandi verðlags og launa þar sem launahækkanir sem gengið hafa í garð og eru fram undan eru taldar af sveitarfélögunum vera ástæða þess að þau þurfi að hækka gjaldskrár. Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga leiða til hærri verðbólgumælingar, ríkissjóður kennir launahækkunum um þegar ríkissjóður hefur ofskuldsett sig, heimilin eru knésett með verðtryggðum lánum og geta ekkert gert til þess að bregðast við. Hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi fjármálaráðherra segist hálffúll út af verðbólgumælingunni sem nýverið var gerð opinber og hversu há hún er, sem hann ber sjálfur ábyrgð á vegna gjaldskrárhækkana ríkisstofnana í síðustu fjárlögum. Verð á þjónustu á flestöllum stöðum á landinu tekur mið af vísitöluhækkunum í hverjum mánuði. Um leið og vísitölumæling er gefin út hækka þjónustustofnanir og þjónustufyrirtæki verðskrá sína sem aftur leiðir til hærri verðbólgu.

Frú forseti. Forsendur fyrir markaðshagkerfi eru margar. Sumar eru til dæmis þær að það sé auðvelt að stofna fyrirtæki, það sé skilvirk og skilmerkileg afgreiðsla á gjaldþrota fyrirtækjum en mikilvægasta forsendan er samkeppni á markaði. Við höfum séð hér nýverið úr ritröð Samkeppnisstofnunar verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Hér hefur viðgengist í áratugi eitthvað sem er þykjustumarkaðshagkerfi þar sem fákeppni og einokun ræður ríkjum, ekki bara í verslun og viðskiptum heldur líka af hálfu hins opinbera sem leiðir svo til hækkana á gjaldskrám og hækkana á sköttum. Þetta er vítahringur sem íslensk efnahagsstjórn hefur verið í í 30 eða 40 ár og enn þann dag í dag er ekki verið (Forseti hringir.) að gera neitt til að breyta þessu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta heitir að geta ekki lært af mistökunum. Þetta er sorglegt.