140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:11]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er búið að vera umfangsmikið í umræðunni af skiljanlegum ástæðum vegna þess að vaknað hafa upp mjög margar spurningar og mörg álitamál í tengslum við þetta sérstaka mál með PIP-brjóstapúðana.

Fyrst til að svara því hvernig brugðist verði við, þá hefur það verið í undirbúningi í velferðarráðuneytinu og ég kynnti það í ríkisstjórninni í morgun að settur verði á stofn starfshópur sem fær það sérstaka verkefni að fara yfir ferlana hvað varðar þetta mál sérstaklega, en ekki síður stöðu einkarekinna læknastofa í lagalegu og siðferðilegu tilliti og ýmis álitamál sem komið hafa upp hér. Þetta er verkefni sem er afar brýnt að fara heildstætt yfir. Enda þótt þetta mál sérstaklega veki ótal spurningar hafa vaknað spurningar vegna mála annarra erlendis og líka vegna viðbragða hópa lækna sem hafa leitað til Persónuverndar til að verja rétt sinn eða tryggja sig gegn því að fá ekki á sig dóma vegna þess að þeir veiti landlækni upplýsingar sem þeir telji sig ekki mega veita. Ég held að það sé afar brýnt að fara yfir allt þetta ferli og allar þær aðstæður sem hafa komið upp og þau álitamál sem þar eru.

Ég var spurður um ábyrgð á eftirliti. Eins og málshefjandi, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, benti á hefur landlæknir auðvitað slíkt eftirlitshlutverk. Það er náttúrlega makalaust að þetta skuli vera álitamál vegna þess að það er ákvæði um það í lögum að við sérstakar rannsóknir og athuganir eigi læknar að skila inn upplýsingum, þá er ég að tala um sérgreinalækna og þá sem vinna á stofum, og menn skuli svo þumbast við og ekki gera það með fullnægjandi hætti. Það er augljóst að þetta kallar á að farið sé yfir lagaumhverfið og með hvaða hætti hægt er að gera slíkar kröfur.

Hv. þingmaður vekur líka athygli á því hvort hægt sé að sætta sig við að menn séu bæði yfirlæknar á ríkisstofnun og reki sérgreinastofur. Almennt er hægt að segja að af u.þ.b. 330 sérgreinalæknum í landinu vinna 200 hjá opinberum stofnunum, margir í hlutastörfum, og það ber að hafa í huga að þannig er kerfið byggt upp að það sé að hluta til á heilbrigðisstofnunum og að hluta til í gegnum sérgreinalækna o.s.frv.

Það hefur verið stefna Landspítalans um langt skeið að yfirlæknar með stjórnunarábyrgð skuli vera í fullu starfi á spítalanum og því ekki með stofurekstur. Hefur þessi breyting tekið langan tíma og spítalinn raunar lent í málaferlum sem ekki hafa unnist þegar reynt hefur verið að setja yfirlækni í fullt starf og þeir hafa ekki viljað það. Í dag er staðan þannig að sá læknir sem hér er rætt um er í 80% starfi og tveir aðrir eru með sambærilega stöðu en þeir eru ráðnir tímabundið og munu ekki verða endurráðnir nema í 100% stöðu sem yfirlæknar. Stefna spítalans í þessum málum er sú að yfirlæknar með stjórnunarábyrgð verði ekki með stofurekstur. Ekki hefur tekist samkomulag við alla um að breyta starfi sínu þannig en málið er þó komið í þessa átt.

Svo að ég svari því sérstaklega tel ég óeðlilegt að aðili sem er yfirlæknir sé með eigin stofu. Aftur á móti er ekki hægt að hindra það svo lengi sem við höfum sérgreinalækna, sem ég tel óhjákvæmilegt, að þeir geti unnið bæði á opinberum stofnunum og á sínum eigin stofum. Um leið þarf að tryggja að utanumhaldið, skráningin á öllu því sem þar fer fram, skráning á þjónustu til viðkomandi einstaklinga, sjúklinga, sé hluti af heildarkerfi sem við getum náð almennilega utan um.

Hv. þingmaður spyr líka um innflutning á lækningatækjum, hvort ekki sé óeðlilegt að sami aðili sé innflytjandi hluta og noti þá. Ég tek heils hugar undir það. Þetta kom mér gríðarlega á óvart vegna þess að ég hef meðal annars verið að skoða og skrifa undir siðareglur hjá einstökum heilbrigðisstofnunum þar sem tekið er sérstaklega fram að menn megi ekki fara í ferðir á kostnað lyfjafyrirtækja o.s.frv., menn hafa sett sér mjög harðar reglur inni á stofnunum en svo dúkkar þetta skyndilega upp. Þetta virðist vera víðar í kerfinu og er hluti af því sem verður að fara heildstætt yfir og reyna að stöðva með einhverjum hætti eða að minnsta kosti að setja það þannig upp á borðið að sjúklingum sé ljóst að viðkomandi hafi þessa hagsmuni samhliða. Þarna eru atriði sem verður að breyta.

Varðandi það hvort herða þurfi löggjöfina og skilvirkt eftirlit, ég held að það sé augljóst líka að við þurfum að gera það og tryggja lagagrunninn fyrir því að hægt sé að beita viðurlögum. Það er raunar hægt í dag. Ef viðkomandi aðilar svara ekki því sem landlæknir óskar eftir má gera athugasemdir og það má svipta menn leyfi til lækninga eða reksturs stofu ef menn brjóta reglur.

En þetta er bara upphaf á umræðu, (Forseti hringir.) í seinni umræðunni í dag förum við nánar út í hvernig við höfum brugðist við. Það er mjög brýnt að draga lærdóm af þessu, (Forseti hringir.) að við tökum þetta inn í heildarumræðuna um heilbrigðiskerfið — um einkarekstur, um almennan og opinberan rekstur og um ábyrgðina út af fyrir sig — (Forseti hringir.) og reynum að draga skynsamlegar ályktanir af því.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hæstv. ráðherra og þingmenn til að virða tímamörk.)