140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega mikilvægt að ræða um eftirlitsmál í heilbrigðisþjónustunni en ég held að þessar tvær umræður í dag opni á einhverjar nýjar víddir í óeiningu og félagslegum vanþroska stjórnarliða. Að menn skuli ekki geta komið sér saman um eina umræðu um sama málið en hafa þess í stað tvær umræður um nákvæmlega sama málið er algerlega ótrúlegt. Við hljótum að spyrja okkur: Verður það reglan?

Við vitum að það er gríðarleg óeining innan stjórnarflokkanna, en munum við fá þrjár, fjórar, fimm umræður á hverjum degi um hvert mál af því að stjórnarliðar geta ekki komið sér saman um hver á að vera málshefjandi? Þetta er hið sérkennilegasta mál. Mér finnst ekki að þingið eigi að gjalda þess hvernig ástandið er á stjórnarheimilinu og á milli stjórnarliða.

Ég vek athygli á því að þegar menn samþykktu frumvarp um sameiningu embættis landlæknis og Lýðheilsustofnunar lögðum við sjálfstæðismenn áherslu á að búið yrði til sérstakt sameiginlegt eftirlitsembætti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún talar um að herða þurfi á eftirlitinu. Takmarkað eftirlit er stærsta einstaka meinsemdin í heilbrigðisþjónustunni að mínu mati. Það er ekki nógu skilvirkt, það er ekki nógu gott og það er ekki nógu samhæft. Við lögðum upp með að sameina eftirlitsþættina í hinum ýmsu stofnunum; hjá landlækni, Lyfjastofnun og öðru slíku. Búið var að vinna undirbúningsvinnu hvað þetta varðar í ráðuneytinu og komin voru drög að frumvarpi, en núverandi ríkisstjórn ákvað að fara aðra leið. Það var óskynsamlegt. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þekkir þetta vel því að við tókum margar ræður um málið á sínum tíma.

Sambland af einkarekstri og opinberum rekstri er alveg sérumræða, ég held að við séum sammála um að við viljum hafa skýr skil þar á milli. Fyrrverandi forstjóri Landspítalans, Hulda Gunnlaugsdóttir, (Forseti hringir.) talaði til dæmis mikið um að það væri næsta verkefni á Landspítalanum.