140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Á fundi velferðarnefndar í gær kom fram það sem ég tel vera einna alvarlegast varðandi PIP-púðana, það tengist eftirlitshlutverki og raunar hlutverki okkar sem stjórnvalda að huga að hagsmunum almennings. Lykilástæða þess að fjöldi kvenna leitaði til þessa læknis var vegna stöðu hans sem yfirlæknis á Landspítalanum, þær töldu í ljósi þess að hann starfaði hjá ríkinu, starfaði á lykilheilbrigðisstofnun landsins, að hann mundi þar með veita bestu þjónustuna. Nú standa þær frammi fyrir því að þær eru með gallaða, ónýta vöru í brjóstum sér, þær eru með vöru sem getur gert það að verkum að þær geta ekki gefið börnunum sínum brjóst eða hafa hugsanlega þegar skaðað börnin sín með því að gefa þeim brjóst vegna rangra eða ónógra upplýsinga um áhrif þessara púða. Þessar konur hafa jafnvel um nokkurt skeið ekki getað sinnt störfum sínum, heimilum sínum, fjölskyldu sinni vegna þessara gölluðu púða. Við tölum um hver bað um þessa umræðu og hverjir tjá sig um málið. Við hljótum að eiga að ræða um konurnar, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) það eru þær sem við eigum að huga að. Það bera allir ábyrgð í þessu máli nema þessar konur.

Landlæknir fékk upplýsingar árið 2010. Ekkert var gert, það var bara vísað á lækninn sjálfan. Læknirinn kom ekki þessum upplýsingum á framfæri. Við vildum fá upplýsingar utan frá til að málið kæmist upp á yfirborðið og síðan þá hafa menn bent hvern á annan. Ég held hins vegar að við þurfum að horfast í augu við að eftirlit með þessum málum er ekki nægilegt. Við þurfum að taka á því. Við þurfum að horfa til erlendra fyrirmynda (Forseti hringir.) og Læknafélag Íslands þarf svo sannarlega að taka í gegn eigin siðareglur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)