140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Í morgun var það í fréttum að aðeins tvær af átta öryggismyndavélum miðborgarinnar virkuðu, hinar væru bilaðar, þær hefðu verið að týna tölunni síðan þær voru settar upp. Ég er ekki endilega hlynnt því að slíkar eftirlitsmyndavélar séu notaðar en mér finnst það eiginlega lýsandi fyrir þá tilfinningu sem ég hef haft eftir hrun, að allar eftirlitsstofnanir virki eiginlega ekki eða kannski 25% en ekki 75%, og veiti okkur falskt öryggi.

Frumábyrgðin í því máli sem við ræðum hér er hjá gerandanum sem er væntanlega framleiðandinn og síðan er ábyrgðin innflytjandans, læknisins og kannski landlæknis. Við búum við kerfi sem býður upp á mjög skrýtnar aðstæður. Hér geta læknar flutt inn vörur og selt sjúklingum sínum og þar með hafa þeir beina fjárhagslega hagsmuni af því að sjúklingarnir, sem treysta auðvitað lækninum, njóti einnar ákveðinnar læknismeðferðar en ekki einhverrar annarrar. Það finnst mér mjög óeðlilegt og við sem löggjafi verðum að koma í veg fyrir þann möguleika.

Fyrst við erum farin að skoða þessi mál beini ég því bæði til ráðherra og nefndarmanna í velferðarnefnd að þeir skoði hagsmunaárekstra á milli lækna og sjúklinga í víðara samhengi. Það er afar brýnt að skoða reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja eins og víða er gert. Lyfjafyrirtæki kosta til dæmis ýmsa fræðslufundi og er erfitt að sjá það fyrir að sú fræðsla sé óháð þeim sem greiða fyrir hana. Mér sýnist þetta mál hafa varpað ljósi á meinsemd í kerfinu hjá okkur sem við verðum að laga og þá duga engin vettlingatök. Við verðum að bretta upp ermar og ég vona svo sannarlega að allir sem koma að þeirri skoðun hafi það hugrekki sem þarf til að grafast almennilega fyrir í þessu máli.