140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:28]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum mál sem hefur margar hliðar. Því miður eru það einar 440 konur sem vitað er um að hafi fengið svokallað „implant“ eða ísetningu á sílikonpúðum í brjóst sem komið hefur í ljós að er gölluð vara. Þegar það er ljóst að púðarnir eru gallaðir er svo margt annað sem kemur fram. Í ljós kemur að sá sem framleiðir vöruna hefur með sviksamlegum hætti náð sér í vottorð og gengið þannig frá vörunni að ekki er hægt að sjá með greinilegum hætti hvort varan er svikin eða ekki.

Við höfum líka séð við þetta ferli að það tvöfalda kerfi sem við búum við, þ.e. opinbera heilbrigðiskerfið og einkarekna heilbrigðiskerfið, þarf endurskoðunar við. Við þurfum líka að skoða með hvaða hætti hægt er að fylgjast betur með þeim aðgerðum þar sem hið opinbera tekur ekki þátt í kostnaði. Margs konar lýtalækningar eru ekki niðurgreiddar af hinu opinbera. Þar er full greiðsluþátttaka þeirra sem fara í slíkar lýtaaðgerðir og þær aðgerðir eru algerlega fyrir utan allt eftirlitskerfi. Landlæknisembættið hefur ekki nokkurn möguleika á að fylgjast með hvaða einstaklingar fara í þær aðgerðir eða hvernig þær fara fram. Ég tel að þó að það sé alvarlegur atburður sem við fjöllum um reki hann okkur til að fara mjög vandlega yfir alla ferla á þessu sviði. Ég þakka því hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) fyrir að hafa sett á fót starfshóp sem skoða á þessi mál og hvet til þess að landlæknisembættið verði styrkt hvað eftirlitshlutverkið varðar.