140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Að tala og hugsa um læknisfræðilega íhluti sem vöru er hluti af vandanum. Skurðaðgerðir eiga ekki að vera söluvara. Það er hættulegt að fara undir skurðhníf og óeðlilegt að láta markaðsöflin ráða á þessu sviði heilbrigðis og ímyndar þar sem mörkin virðast hafa horfið. Það þarf að taka á þessu nú þegar. Ég segi þetta af því að ítrekað hef ég heyrt fólk tala um brjóstapúða sem vöru. Ég heyrði lækni í gær tala um brjóstapúða eins og ólíkar gerðir af bílum, konur gætu valið ákveðna tegund í líkama sinn. Mér finnst slík umræða vera táknmynd þess hvað við erum komin á miklar villigötur varðandi mannslíkamann og varðandi heilbrigði og þá þjónustu og eftirlit sem við þurfum að viðhafa í landinu og út um allan heim.

Mig langaði að spyrja okkar ágæta hæstv. heilbrigðisráðherra, velferðarráðherra, hvort hann hafi hug á að leggja fram frumvarp þar sem settar verði skorður við hagsmunaárekstrum eins og hér hefur verið rætt um eða hvort hann hafi hug á að styðja slíkt frumvarp ef þingmenn kæmu sér saman um að leggja það fram. Í síðari umræðu um þetta mál munum við svo fara yfir það hvað yfirvöld þurfa að gera til að veita þeim konum sem hafa stórhættulegan íhlut í líkama sínum þá þjónustu að fjarlæga hann og hvernig eigi að gera það. Ég held að við ættum ekki að deila um ábyrgðina heldur bara gera eitthvað í því strax. Mér finnst ömurlegt að í staðinn fyrir að fólk sé að vinna saman, ábyrgðaraðilar sem eru margir, að lausn (Forseti hringir.) þá bendir hver á annan. Menn gleyma því (Forseti hringir.) að þegar maður beinir puttanum fram þá snúa þrír að manni (Forseti hringir.) sjálfum. — Slakaðu á!