140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þátttöku þingmanna í þessari umræðu og finn að menn deila áhyggjum mínum af þessu máli. Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vandkvæðum varðandi markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og markaðsvæðingu mannslíkamans. Þetta mál hefur grafið verulega undan trausti okkar á heilli stétt, sem er læknastéttin, en það grefur líka undan trausti okkar á hinu opinbera eftirlitskerfi. Þó að ég hafi orðið þess vör að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson stykki svolítið glaður á eftirlitskerfið og skellti skuldinni á það þá held ég að það sé kannski svolítið billeg lausn þó að vissulega hafi það brugðist.

Maður þarf nefnilega að huga að því hvernig maður hannar öryggisnetið áður en maður breytir kerfinu og markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar er áhyggjuefni og ekki síst það mikla samkrull einkaþjónustu, einkareksturs og opinberrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Það kemur mér verulega á óvart — og ég þakka fyrir þær upplýsingar sem ég fékk hjá hæstv. velferðarráðherra — að af 330 sérgreinalæknum séu hvorki meira né minna en 200 í opinberum störfum á hinum ríkisreknu sjúkrahúsum. Þarna er hagsmunaárekstur, óeðlilegur hagsmunaárekstur, og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir lagabreytingu eða setningu reglugerðar þannig að hægt sé að stemma frekari stigu við þessu.

Ég fagna upplýsingum frá ráðherra, um stofnun þessa starfshóps um einkarekstur og verkferla við eftirlit með þeim, ekki veitir af, sýnist mér. Þetta mál, eins og það er tilkomið, er reginhneyksli og eiginlega alveg sama hvernig á það er litið. Ekki síst er það afhjúpandi fyrir réttindaleysi almennings í þessu landi því að það er staða sjúklingsins sem á að vera brennipunktur allra aðgerða og stefnumótunar í heilbrigðismálum.