140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

fundarstjórn.

[14:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að þetta á ekki við um fundarstjórn forseta sem er góð. Hins vegar hvet ég hv. þingmenn sem eru augljóslega mjög viðkvæmir fyrir því að bent sé á þá óeiningu og þann vandræðagang sem er í kringum þetta mál að það er ekki sannfærandi að segja annars vegar að ég eigi að fagna því að þá verði lengri umræða um málið og segja svo hins vegar að þetta séu tvö ólík mál. Sú röksemdafærsla gengur ekki upp. Menn geta sagt að málið sé bara svo mikilvægt að við skulum halda nokkrar umræður um það til að allir geti talað sem lengst, svo getum við kannski líka lengt ræðutímann, bara sjálfsagt. En það blasir hins vegar við öllum að hv. þingmenn hafa ekki náð saman. Þess vegna erum við með tvöfalda umræðu og ef menn reyna að halda einhverju öðru fram, (Gripið fram í.) og jafnvel halda því í fullri alvöru fram að ekki sé óeining innan stjórnarliðsins, verða menn bara að eiga það við sig. (ÓÞ: Þetta er þitt málefnalega innlegg.)