140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[14:51]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér tökum við fyrir annan anga af umræðunni þar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vekur athygli á því að málið snýst fyrst og fremst um þær konur sem hér um ræðir og áhyggjur og þann ótta sem þær hafa af þeim upplýsingum sem komið hafa um þetta iðnaðarsílikon sem svikið var inn á markaðinn undir fölskum merkjum.

Fyrr í umræðunni kom fram að árið 2010 var tilkynnt um hættu af notkun á þessari vöru. Henni var þá strax kippt út af markaðinum. Síðan hafa staðið deilur um hvernig brugðist hafi verið við að öðru leyti þar sem standa orð gegn orði, það sem læknirinn segir og það sem þá starfandi landlæknir sem segir að óskað hefði verið eftir því við viðkomandi lækni að hann upplýsti konurnar um þetta svikna sílikon.

Sú nefnd sem ég talaði um mun kanna betur hvað gerðist, en þarna áttu sér líka stað bréfaskriftir sem skýra málið að hluta.

Málið kom ekki upp aftur fyrr en í desember 2011 þegar upp kom umræða um krabbameinshættu í tengslum við hið gallaða sílikon. Það var skoðað af þar til bærum yfirvöldum, sérstaklega í Evrópu, og dregið var úr hugmyndum um að sílikonið yki hættu á krabbameini. Menn drógu til baka að um sérstakt hættuástand væri að ræða en eftir sem áður þyrfti að bregðast við með viðeigandi hætti.

Íslensk stjórnvöld kynntu síðan viðbrögð sín 10. janúar 2012, eftir að hafa stofnað viðbragðshóp innan ráðuneytisins þar sem voru starfsmenn ráðuneytisins, bæði fagmenn úr heilbrigðisstétt og lögfræðingar, og síðan fulltrúi frá landlækni og Lyfjastofnun. Það er ástæða til að halda því til haga að Lyfjastofnun kom ekki að málum um lækningatæki og íhluti fyrir aðgerðir fyrr en um síðustu áramót. Áður var það landlæknir sem hafði eftirlit með slíku.

Þegar við kynntum viðbrögð okkar hjá ráðuneytinu gengum við mun lengra en að minnsta kosti allar Norðurlandaþjóðirnar og flestar aðrar þjóðir með því að gera ráð fyrir að kalla allar þær konur til ómskoðunar sem fengið hefðu PIP-púða. Þá höfðum við átt munnlegt samtal við Krabbameinsfélagið um að það sinnti þessu verkefni, en það verður bara að segjast alveg eins og er að það tafðist í eina til tvær vikur vegna ágreinings um verð og um það hver ætti að vinna verkið undir þeirra hatti. Það undirstrikar líka þá stöðu sem við erum í almennt varðandi þessa þjónustu og hvernig hún er veitt og af hverjum.

Af því að við höfum talað um 440 konur í þessu sambandi er ástæða til að upplýsa að þegar farið var nánar í málin og þegar bréfin voru send út fengu 393 konur bréf. Sumar af þeim hafa þegar sagt að þær hafi fengið bréf án þess að hafa nokkurn tímann fengið PIP-púða, sem undirstrikar líka vandamálið um hvernig skráningu hefur verið háttað. Því þarf að fylgja sérstaklega eftir.

Því til viðbótar var auglýst og kynnt, hjá Lyfjastofnun og víðar, að konur gætu haft samband, og var beðið um að þær gerðu það, þó að þær fengju ekki bréf.

Fyrsta ómskoðunin hefst núna á fimmtudaginn, og því mun svo verða fylgt eftir eftir atvikum með röntgen eða MRI-greiningu. Það var hugmynd okkar í byrjun að við mundum reyna að ná til allra þessara kvenna og fylgja því eftir, ekki bara með skoðun heldur einnig með viðtölum, lögð var gríðarleg áhersla á það, og ráðgjöf þar sem við gætum kortlagt ástandið í framhaldinu og metið frekari aðgerðir ef þessar dygðu ekki.

Það er allt saman komið í gang og meginforsendurnar sem við gáfum okkur voru þær að við mundum bjóða konunum að láta fjarlægja þessa leku púða, síðan yrði boðið upp á eftirlit og ef PIP-púðarnir lækju síðar yrði það gert með sama hætti í þeirri lotu. Ástæðan fyrir því að ekki var gengið lengra og sagt að fjarlægja ætti alla púðana eru ráðleggingar meðal annars frá læknum erlendis og þeim sem kannað hafa þetta mál þar sem þeir vilja skoða það betur, því að auðvitað fylgir áhætta aðgerðinni. Púðarnir áttu að duga í 10–15 ár og þarna stöndum við vaktina ásamt Evrópuþjóðunum með daglegum samskiptum um með hvaða hætti bregðast eigi við.

Þetta er það sem kynnt hefur verið og við skulum vona að það gangi eftir. Það eru ákveðin vonbrigði að í þeim auglýsingum og bréfum sem send hafa verið út hafa ekki nema 160 konur brugðist við nú þegar og tilkynnt að þær hafi farið í ómskoðun. Það verður áhugavert að fylgjast með hversu margar konur hafa verið búnar að skipta púðunum út áður en málið kom upp.

Allar þessar upplýsingar koma inn þessa dagana og ég held að það skipti mjög miklu máli að fylgja þeim eftir. Ég vil ekki líkja þessu ástandi við eitthvert rútuslys eða hamfarir. Við verðum að passa okkur á því að búa ekki til yfirlýsingar sem stangast jafnvel á við það sem þó er vitað best og gert best erlendis. (Forseti hringir.) Þá á ég við til dæmis Bretana, þeir bjóða ekki 42 þús. konum (Forseti hringir.) að láta fjarlægja púðana, það eru 3 þús. konur sem styrktar voru af heilbrigðisyfirvöldum þar sem fá þessa þjónustu. (Forseti hringir.) Aðrar fá hana ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk fyrir einum degi. (Gripið fram í: Þjóðverjar og Frakkar.) (Gripið fram í: Það er rétt, Frakkar og Þjóðverjar.)