140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur og held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við tökum bara Ikea-leiðina á þetta og hvet hæstv. ráðherra til að skoða það.

Það hefur komið fram í samræðum mínum við eina af konunum sem eru með PIP-púða að hún fékk árið 1988 svokallaða Dow Corning púða sem áttu að vera alveg öruggir en síðan kom í ljós að ef það lak úr þeim var það krabbameinsvaldandi. Mér finnst mjög mikilvægt að slá ekki upp fullyrðingum um til dæmis brjóstagjöf. Við konur sem höfum haft börn á brjósti vitum að ef við borðum lauk hefur það áhrif á barnið okkar, og mér finnst því mjög varasamt bæði að gera lítið úr áhættunni og gera of mikið úr henni, við þurfum að fara einhvern milliveg.

Mér finnst mjög mikilvægt að allir púðar verði fjarlægðir, lekir eður ei, ef konurnar óska þess. Mér finnst jafnframt mjög mikilvægt að þeim verði gefinn kostur á því, endurgjaldslaust, að fá sömu púða og Landspítalinn notar af því að sílikonið í þeim er allt öðruvísi en í PIP-púðunum og reynslan af þeim hefur verið nægilega góð til að réttlætanlegt sé að setja þá í líkama manneskju.

Mig langar jafnframt að benda hæstv. ráðherra á eitt og óska eftir að brugðist verði við því; ég fékk skeyti frá einni af konunum þar sem hún segir: Við getum ekki fengið sjúkraskýrslurnar okkar frá Jens því að hann einn hefur aðgang að þeim og hann er í fríi. Ég óska eftir að eitthvað verði gert í þessu nú þegar.