140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:06]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem við erum hér með til umræðu er afar sorglegt, ekki bara fyrir þolendur og aðstandendur heldur ekki síður vegna þess eftirlitskerfis sem engan veginn hefur staðið sig og vegna þess trúnaðartrausts sem er brotið í heilbrigðiskerfinu. Það er sorglegt sem dæmi um það óeðlilega samspil sem hefur verið milli einkareksturs og opinberrar heilbrigðisþjónustu, sorglegt vegna upplýsingaskorts og hindrana í eðlilegri og nauðsynlegri upplýsingasöfnun og skráningu í heilbrigðiskerfinu og sorglegt dæmi um ábyrgðarlaust einkavætt sérfræðingakerfi.

Þetta er því miður staðan og spurningin er hvaða lærdóm við ætlum að draga af þessari sögu. Þetta er ekki bara spurning um viðbrögð við vandanum sem skipta miklu heldur hvaða svörum við erum að leita eftir og hvernig við ætlum að koma hlutum í viðunandi horf. Það er ljóst og kom skýrt fram í umræðu í velferðarnefnd í gær að hér skortir á um siðareglur fyrir heilbrigðisstéttir í hagsmunatengslum í heilbrigðisþjónustu. Hér skortir á endurskipulagningu á regluverki í einkarekstri sem virðist hafa ótakmarkaðan aðgang að fjárhirslum ríkisins í aðgerðum sínum, hér skortir á um skýran rétt og heimildir landlæknis varðandi skráningu og sjúkraskrár og það skortir á virkara eftirlitskerfi og meira öryggi til að bæta og treysta réttarstöðu almennings.

Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda og velferðarráðherra hafa að mínu mati verið yfirveguð og markviss. Við verðum að varast það að ala á og magna upp meiri ótta en ástæða er til. Heilbrigðisráðherra fór hér á undan yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til. Það er alveg klárt að uppi er hávær krafa um að sækjast eftir öryggi og (Forseti hringir.) þjónustu hjá hinu opinbera og við vitum af umræðunni hvar öryggisventillinn er. (Forseti hringir.) Mistökin hafa verið dýr en við þurfum að læra af þeim.