140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar stjórnvöld þurfa að takast á við mál sem þetta skipti miklu að þau taki fljótt ákvarðanir og fylgi þeim eftir. Mér finnst ekki öllu skipta hvað við köllum þessa púða sem voru notaðir, hvort þeir eru vörur eða íhlutir eða hvað þeir kallast. Það er hins vegar ljóst að töluverður fjöldi kvenna hefur áhyggjur af þessum púðum og er hugsanlega í hættu og því þarf að bregðast við.

Ég tek því undir orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur hér áðan í ræðustól þegar þingmaðurinn hafði áhyggjur af athafnaleysi og hugsanlega ábyrgðarleysi. Í raun má sameina þetta í eitt orð, sem er vandræðagangur. Ég hygg þó að velferðarráðherra sé einhver vorkunn því að sjálfsögðu hafa menn ekki gert ráð fyrir að þessi staða kæmi upp en hins vegar þarf að bregðast mjög skjótt við. Þar held ég að ríkisvaldið hafi ekki staðið sig nógu vel, þ.e. að setja skýra línu um hvað eigi að gera. Ég held að lausnin sé kannski sú að viðurkenna að vandinn er til staðar og gefa eigi konunum val um hvað þær vilja gera í málinu, eins og hv. þingmenn hafa nefnt. Ég held að það skipti mestu.

Þegar málið er komið á þetta stig er það að sjálfsögðu heilbrigðismál. Ég treysti mér ekki til að skilgreina hvað þetta er, þ.e. að fara í svona aðgerð, en þegar um er að ræða um sílikonvökva, hugsanlega eitraðan, sem er farinn að leka út í líkamann er þetta vitanlega orðið heilbrigðismál. Ég vil hvetja hæstv. velferðarráðherra til að taka hreinlega af skarið og bjóða þeim konum sem það vilja að púðarnir séu fjarlægðir. Þær sem ekki vilja það hafa þá vitneskju um að þetta geti verið hættulegt eða að minnsta kosti að varan geti verið gölluð.