140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra svörin og fyrir að hafa upplýst að töfin var meðal annars vegna ágreinings um kostnað af verktöku Krabbameinsfélags Íslands við ómskoðanir. Hæstv. ráðherra svaraði hins vegar ekki spurningu minni um heilbrigðisvanda þeirra kvenna sem íhuga málshöfðun vegna þessara leku púða og heldur ekki spurningunni um hvort hann sé enn þeirrar skoðunar að aðeins eigi að fjarlægja PIP-púðana eftir að þeir eru farnir að leka.

Það er rétt að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa vísað mikið til Bretlands í þessu sambandi, sem fyrir mér er sérstakt athugunarefni. Eina dæmið sem ég þekki um að opinberar heilbrigðisstofnanir, opinber yfirvöld, hafi keypt þessa ódýru og sviknu PIP-púða er einmitt í Bretlandi. Þar ætluðu menn fyrst ekki að gera neitt en hafa nú ákveðið að láta fjarlægja á kostnað ríkisins púðana sem upp voru settir, óski konurnar eindregið eftir því. Þar með sýna yfirvöld þar tiltekið fordæmi og ætlast til þess að einkageirinn fylgi á eftir.

Hæstv. ráðherra segir að af 440 konum hafi aðeins 160 brugðist við nú þegar. Ég spyr: Var gengið úr skugga um að þessar konur væru sjúkratryggðar? Ég þekki konur sem búsettar eru á Norðurlöndunum og annars staðar sem eru í þessum hópi og hafa tapað sjúkratryggingu sinni hér á landi.

Vissulega fylgir áhætta þeirri aðgerð að taka púðana. Hún er hins vegar af stjórnvöldum álitin minni en af því að bera þessa púða eins og til dæmis í Frakklandi og Þýskalandi og af einkareknum stofum í Svíþjóð og Danmörku. Þess vegna hvet ég hæstv. velferðarráðherra til að endurskoða afstöðu sína og ákvörðun, bjóða ómskoðun eða brottnám púðanna og ísetningu nýrra og öruggari púða strax, en tryggja jafnframt að útgjöld skattgreiðenda fáist endurgreidd af viðkomandi einkafyrirtæki eða tryggingafélagi þess. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að það er óþolandi að konur eigi aðeins það val að bíða eftir því að þessir púðar fari að leka (Forseti hringir.) eða að punga út með 450–620 þús. kr. til þess að losna við þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)