140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er mál flutt öðru sinni af mér og tveimur öðrum hv. þingmönnum, Ólínu Þorvarðardóttur og Magnúsi Orra Schram.

Málið er ekki umfangsmikið. Það varðar fremur lítið málasvið sem er flutningur gæludýra til og frá landinu, fyrst og fremst hunda og katta að sjálfsögðu. Með framþróun í tækni og eftirliti hefur flutningur gæludýra á milli landa tekið miklum breytingum í heimsálfu okkar, Evrópu. Þannig hafa verið innleiddar reglur í Evrópusambandinu sem gera miklum mun auðveldara fyrir fólk, fjármagn og fyrirtæki að ferðast yfir landamæri og sömuleiðis fyrir gæludýr því að fólk vill auðvitað hafa dýrin sín með á ferðalögum. Hjá sumum okkar háttar raunar þannig til að við þurfum beinlínis á því að halda að hafa leiðsöguhunda með okkur yfir landamæri. Það fornfálega fyrirkomulag sem enn er við lýði á Íslandi, þar sem setja þarf gæludýr í eins mánaðar einangrun við komu til landsins, gerir það að verkum að Íslendingar njóta ekki sama frelsis og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Ástæðan fyrir því að þetta er hægt en var ekki hægt á sínum tíma þegar þessar takmarkanir á ferðum gæludýra milli landa voru settar á er sú að tækninni hefur fleygt fram. Í öðrum löndum eru nú einfaldlega gefin út vegabréf fyrir gæludýr. Í þeim eru örflögur. Síðan eru örflögur græddar í dýrin þannig að vegabréf þessara gæludýra eru talsvert áreiðanlegri en vegabréf okkar mannanna því það eru beinar tengingar á milli örflögunnar í viðkomandi dýri og því sem er í vegabréfinu sem framvísað er fyrir það.

Dýr sem eru undir eftirliti dýralæknis gangast undir bólusetningu og sýna að þau hafa myndað mótefni vegna bólusetningarinnar með sérstakri prófun. Þeim er þá heimilt að fara milli landa með eigendum sínum og væri þá heimilt að fara til Íslands eins og til allra annarra landa í Evrópu, allt frá Krítarströndum í suðri til nyrstu stranda Noregs, en yfir öll landamæri þar í milli geta menn ferðast með þessum hætti, meira að segja til Bretlandseyja en Bretlandseyjar eru ásamt Íslandi eitt þeirra tíu landa sem hefur verið laust við hundaæði.

Bretar — frá eyríki eins og við — hafa lagt mikla áherslu á öryggi í þessum efnum. Þeir gerðu þessa breytingu hjá sér upp úr aldamótunum og gengu síðan enn lengra nú fyrir örfáum árum. Það er býsna athyglisvert að skoða hættumat þeirra í þessu máli út frá rannsóknum á því hvaða hættu þessar tilslakanir þýða á því að dýr með tilfelli af hundaæði komi til Bretlandseyja og sömuleiðis hvaða líkur séu á því að hundaæði leiði til andláts einhvers. Í okkar tilfelli skapast slík hætta á svo margra milljón ára fresti að það er alveg ljóst að þessi litla breyting skapar ekki neina umtalsverða hættu. Reynsla Breta af þessari breytingu sem gerð var fyrir um það bil tíu árum var svo góð að þeir hafa nú gengið enn lengra en gert er ráð fyrir í þessu litla máli hér. Þeir krefjast þess ekki lengur að framvísað sé blóðprufu sem sýni að dýrið hafi myndað mótefni heldur er nú nægilegt að sýna aðeins fram á bólusetninguna.

Bretar eru enn sem fyrr lausir við hundaæði og þeirra landbúnaðarstofnun lét færustu dýralækna þar í landi framkvæma ítarlegt áhættumat. Hættan sem með þessu skapast hygg ég að varði eitt dýr af liðlega tveimur milljónum dýra sem í okkar tilfelli, þar sem um mjög takmarkaðan innflutning eða tilflutning milli Íslands og annarra landa á hverju ári væri um að ræða, er einfaldlega hverfandi hætta og vart þess eðlis að ástæða sé til þess að fjalla mikið um hana. En málið auðveldar augljóslega ferðalög milli landa, fjarlægir landamærahindranir, auðveldar fólki að fara um og njóta þeirra lífsgæða að vera í samvistum við dýrin sín þegar það fer á milli landa, hvort sem það er í vinnutengdum erindagjörðum eða til þess að fara í sumarfrí.

Auðvitað er það líka í vaxandi mæli og mun verða æ algengara með árunum að fólk eigi húsnæði í tveimur löndum Evrópu, Íslandi og einhverju öðru landi, eða leigi sér sumarhús í öðru landi en það býr í. Það vill auðvitað geta haft alla fjölskylduna með sér, þar með talið dýrin, að ég tali nú ekki um þá sem þurfa á dýrunum að halda sem hjálpartækjum. Sömuleiðis auðveldar þetta margvíslega aðra starfsemi í kringum hunda, svo sem björgunarhunda. Hamfarabjörgunarsveit okkar hefur til dæmis farið utan til hjálparstarfa. Það væri mikilvægt að geta nýtt þá hunda sem hér hafa verið þjálfaðir í þeim tilgangi án þess að þurfa að setja þá í einangrun þegar til baka er komið. Þannig mætti áfram lengi telja.

Virðulegur forseti. Ég vonast til þess að málið fái góða og vandaða umfjöllun í hv. atvinnuveganefnd og að menn detti ekki í þann pytt um þetta litla og sjálfsagða mál að skiptast upp í flokka, með og á móti einangrunarvistun á hundum og köttum, eftir því hvort þeir séu fylgjandi Evrópusambandinu eða andvígir. Gæludýr eru hvorki í né utan við Evrópusambandið og eru hvorki með né á móti Evrópusambandinu. Ég held að menn eigi ekki að láta þau gjalda fyrir afstöðu sína til þess ríkjabandalags, heldur greiða þeim einfaldlega leið til og frá landinu með málefnalegum hætti.