140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:04]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson hvort hann geri engan greinarmun á gæludýrum og smithættunni sem getur hlotist af þeim annars vegar og þeirri smithættu sem getur hlotist af búpeningi hins vegar? Ég geri þarna skýran greinarmun á vegna þess að gæludýr lifa í heimilisumhverfi, bæði innan lands og í þeim tilvikum sem þau væru á ferðalögum með eigendum sínum erlendis; lifa á dósamat, pokafóðri, vottuðu og hreinu fóðri, og eru í umhverfi með manninum. Maður veltir því fyrir sér hvort meiri hætta sé á smitun eða því að sjúkdómar berist þó að gæludýr séu í ferðum með fólki frekar en bara af ferðum fólks.

Af því hestaflensan, sú skæða pest, kom hér til umræðu áðan reið hún hér húsum þó að enginn innflutningur hefði verið á hrossum að utan. Það var ekki innflutningur dýranna sem olli pestinni, það voru ferðalög fólks. Það voru hestamenn sem báru smitið, undir stígvélum sínum, í reiðtygjum og í fatnaði, til landsins. Enn eru farnar bændaferðir þar sem bændur ganga um erlend fjós og ekkert eftirlit er með því hvað þeir bera með sér undir skófatnaði og í fatnaði þegar þeir koma aftur til landsins.

Ég mundi því halda að ástæða væri til að gera greinarmun þarna og langaði að heyra sjónarmið hv. þingmanns, sem er líka dýralæknir, á því hvort hann geri ekki þennan greinarmun, þ.e. að minni hætta sé af ferðum gæludýra í mannlegu og manngerðu umhverfi en hinum möguleikanum sem varðar innflutning búpenings sem ég mundi segja að væri allt annað og alvarlegra mál ef til kæmi.