140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er alveg klárt að við getum gert greinarmun á áhættustiginu af því að flytja inn ákveðna dýrategund, búfjártegund, eða gæludýr upp á smithættu á milli dýrategunda. En eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er hættan fyrir hendi. Ég nefndi dæmi um hestapestina þar sem sýkillinn greindist bæði í köttum og hundum og barst þar af leiðandi alveg eins með þeim eins og fólki sem ekki gætti að smitvörnum. Það er líka rétt að það er talið að þessi pest hafi farið hér í hesta með innflutningi manna sem gengu óvarlega um og vörðu sig ekki. Þess vegna er það svo mikilvægt. Þess vegna eru, til að mynda bæði í Nýja-Sjálandi og Ástralíu, miklu harðari reglur fyrir fólk sem tengist dýrum þegar það kemur til landsins, varðandi það hvað það hefur gert til að verja sig og um leið þá stofna sem eru í þessum löndum.

Ég vil bara segja að með þessu frumvarpi er verið að opna möguleika sem við þurfum að velta mjög alvarlega fyrir okkur.

Hv. þingmaður nefndi bændaferðir og ég hef farið í slíka ferð. Skoðað var eitt býli og mönnum blöskraði útlitið þar. Það leið öllum mjög illa yfir því og höfðu áhyggjur af því hvernig þeir gætu sótthreinsað sig áður en þeir færu heim. Það eru ákveðnar reglur um það að menn láti líða hið minnsta sólarhring og helst tvo til þess að forðast að ákveðnir sjúkdómar sem geta borist með lofti geti borist í skepnur. Auðvitað skipta menn síðan um föt og fara ekki í sama skófatnaði og annað í þeim dúr.

Það er fullt af smitvörnum til. Það sem ég er að vara við er að ef þetta verður opnað þá séum við búin að opna á möguleika sem erfitt verði að hafa stjórn á.