140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það að leyfa diplómötum fram til ársins 1988 að koma með gæludýr eða einhver kvikindi til landsins var vitanlega ekkert nema bölvað kæruleysi og átti að taka á því miklu fyrr. Það bætir ekki úr þessu máli á nokkurn einasta hátt.

Hv. þingmaður talar um engar rannsóknir. Ég velti því fyrir mér hvort ekki eigi að hafa í huga varnaðarorð sérfræðinga sem hafa komið fram í blöðum, meðal annars veirufræðingur sem ég nefndi áðan og fleiri, og varað við þessu. Reynsla Íslendinga af því að flytja inn lifandi skepnur og plöntur, eins og nefnt var áðan með sauðfé og kartöflur, segir okkur að margt er að varast í þessu, þannig er það einfaldlega.

Ég veit ekki hvort í þessu máli eigi endilega að skipta mönnum í þá sem eru með eða á móti Evrópusambandinu, en það er hins vegar óhjákvæmilegt, herra forseti, að ræða þessi mál saman. Króginn er náttúrlega náskyldur foreldrunum í þessu tilfelli, því að hv. þingmaður talar um að taka upp Evrópureglur, þær reglur sem gilda innan Evrópusambandsins um innflutning á lifandi dýrum, og það er að sjálfsögðu ekki nokkurt einasta vit í því að yfirfæra það frelsi hingað.

Það kann vel að vera að reynsla Norðmanna og einhverra annarra af þessu sé eins og hér hefur verið lýst, að þetta hafi ekki haft stórvægileg áhrif hjá þeim. Við þurfum kannski helst að lesa þær rannsóknir. En að taka þessa áhættu með okkar einstaka dýralíf og einstöku náttúru finnst mér mjög mikið kæruleysi, ég segi það alveg eins og er. Því það má alveg gera ráð fyrir að ef við opnum á þetta munum við ekki bara stofna vinnu gæludýraræktenda í hættu heldur einnig búfjárstofnum, því bent hefur verið á (Forseti hringir.) að smit geta borist á milli gæludýra og búfénaðar.