140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eflaust hægt að tína upp margs konar sorgleg dæmi um að fólk hafi þurft að skilja við dýrin sín eins og hv. þingmaður nefndi. En að tala eins og það sé í stórum stíl er vitanlega ekkert annað en blekking.

Þetta snýst heldur ekki bara um hunda og ketti. Þetta frumvarp snýst um gæludýr og væntanlega þau gæludýr sem ég geri ráð fyrir að heimilt sé að flytja til landsins í dag. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér hvort það eigi við um kanínur eða strúta eða einhver önnur dýr en að minnsta kosti nær þetta yfir meira en hunda og ketti, svo að það liggi alveg fyrir.

Í frumvarpinu stendur að við 1. gr. laganna bætist ný skilgreining, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Gæludýravegabréf: Skilríki sem staðfestir að gæludýr hafi fengið allar nauðsynlegar bólusetningar til að hægt sé að ferðast með það innan landa Evrópusambandsins og aftur til Íslands.“

Hv. þingmaður og hæstv. forseti. Það er ekki ég sem er að tengja þetta mál við Evrópusambandið. Það stendur einfaldlega í frumvarpinu að horft sé til þess að sömu reglur gildi á Íslandi og innan Evrópusambandsins. Þá er vitanlega búið að tengja þessi mál saman. Ég vísa því til föðurhúsanna þegar sagt er að við eigum ekki að tengja saman Evrópusambandið og þessa umræðu.