140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málið og frumkvæði á þessu sviði. Ég held að það sé augljóslega eitt af brýnustu verkefnum þingsins og þjóðarinnar að ná sátt í auðlindamálunum og eðlilegum arði af þessari grundvallarauðlind okkar í sameiginlega sjóði.

Ég vil spyrja þingmanninn um nokkur atriði sem fram komu í máli hans. Eitt er þetta með sveitarfélagatengingarnar. Mér líst vel á að uppboð fari fram um aflaheimildir til að tryggja að þær renni í sameiginlega sjóði, en hvernig er þetta hugsað með að það renni til sveitarfélaga eins og á höfuðborgarsvæðinu? Við Reykvíkingar höfum um aldir sótt sjó og höfðum auðvitað mikla veiðireynslu þegar kerfið var innleitt, öflug útgerðarfyrirtæki voru í Örfiriseynni, en ættu þá ekki Kópavogsbúar eða Garðbæingar eða Álftnesingar, eins og hv. flutningsmaður, eða Mosfellingar að eiga sömu hlutdeild í sameiginlegri auðlind okkar landsmanna og við Reykvíkingar? Ættum við að fá einhvern veginn meira út úr auðlind okkar allra en þessi sveitarfélög? Hvernig er þetta hugsað?

Aðeins um að lengja strandveiðarnar bæði inn í apríl og september. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að þeir litlu bátar sem stunda þessar strandveiðar, og sumir kannski búnir takmörkuðum tækjabúnaði og komnir til ára sinna, geti lent í vályndum veðrum á þessum árstímum og við misst niður þann mikla árangur sem við höfum náð í því að koma í veg fyrir banaslys á sjó?

Síðan um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem hv. þingmaður nefndi, er ekki galli að setja margar útgáfur af málum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Er ekki nauðsynlegt að sú niðurstaða sem verður í þjóðaratkvæðagreiðslu sé niðurstaða sem hafi meiri hluta atkvæða á bak við sig, hreinan og kláran?