140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil þau sjónarmið sem liggja að baki þessu með sveitarfélögin en ég er þó ekki viss um að það sé alls kostar sanngjarnt. Ég þekki best til vestan Rauðarárstígs á Íslandi og við getum sagt að þar hafi Seltirningar mann fram af manni sótt sjó. Þar búa útgerðarmenn sem gerðu út úr Selsvörinni eða síðar úr Örfiriseynni og mér fyndist svolítið skrýtið ef þeir ættu ekki hlutdeild í sameiginlegri auðlind sem liggur úti á Faxaflóanum og fyrir fótum bæði okkur Vesturbæinga og Seltirninga. Bara við sem værum Reykjavíkurmegin við mörkin nytum góðs af þessu ef ég hef skilið þetta rétt. Þetta er kannski einhver misskilningur hjá mér.

Svo velti ég líka fyrir mér öðru, er það ekki til þess fallið að koma í veg fyrir byggðaþróun að binda þetta við það mynstur sem var milli sveitarfélaga á einhverjum tilteknum tíma? Er það ekki svolítið eins og að ákveða að af því að á einhverju tilteknu ári hafi verið prjónastofur í þessu og hinu sveitarfélagi eigi alltaf að vera prjónastofur þar? Þróast ekki atvinnustarfsemi og búskaparhættir, flyst fólk ekki milli landsvæða, er ekki nauðsynlegt að hafa meiri sveigjanleika í þessu? Kannski er þetta frjálsa framsal sem hv. þingmaður nefndi hugsað sem lausnin á því.

Aðeins um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ef það fer fram atkvæðagreiðsla um marga kosti, sem greinilega eru rök fyrir, yrði þá ekki líka að fara fram síðari umferð atkvæðagreiðslunnar til að velja þá á milli þeirra tveggja kosta sem flest atkvæði hefðu fengið? (Forseti hringir.) Eða hvernig sér hv. þingmaður það?