140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur málefnalegar spurningar. Það sem gerist í svona kerfi er að betur reknar og betur staddar útgerðir eru betur í færum til að kaupa afla á mörkuðum. Verr reknar og verr staddar útgerðir eru verr til þess fallnar. Það er eins og gengur og gerist í hvaða viðskiptaumhverfi sem er.

Fyrirtæki sem skulda lítið og þurfa lítið að greiða í vexti og afborganir munu hafa betri aðstöðu til kaupa á kvóta. Uppboð á þessum aflaheimildum verður hins vegar að vera skilgreint með sérstökum aðferðum, bara eins og gert er til dæmis í uppboðum á ríkisskuldabréfum. Það er aldrei einhver einn ákveðinn aðili sem fær að kaupa allan stabbann þó að hann bjóði best. Uppboð og uppboðstaktík er með mörgum mismunandi aðferðum og í þessu tilfelli hér, þar sem verið er að bjóða upp takmarkaða auðlind þar sem menn vilja ekki að allar aflaheimildir lendi á höndum eins eða fárra, verða þau uppboð einfaldlega strúktúreruð þannig að nægilega margir geti boðið í og fengið afla til að viðhalda atvinnustarfseminni. Það er nákvæmlega eins og gert er við útboð á ríkisskuldabréfum úti um allan heim.

Verð skipa lækkar vissulega. Vegna þess að kvóta er núna úthlutað á skip er hann ekki lengur hluti af verði skipsins en það er bara eitt sem fylgir þessari breytingu á kerfinu. Upprunalega var farið af stað með þetta kerfi í ranga átt. Kvóta var úthlutað á skip í staðinn fyrir að úthluta honum eins og eðlilegt var á sveitarfélög og láta kvótann vera þar áfram. Þetta er tilraun til að breyta fyrirkomulagi sem búið er að vera í gangi í allt of langan tíma með allt of vondum afleiðingum.