140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:36]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorð því að 1. flutningsmaður málsins hefur farið vel yfir það. Við ræðum um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða vegna þess að breytinga er virkilega þörf. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að tryggja að arðurinn af auðlindinni, þessari sameiginlegu auðlind, renni til þjóðarinnar en ekki til einhverra sjálfskipaðra eigenda eða einhverra aðila sem hafa fengið happdrættisvinning.

Ég held að sú leið sem hér er lögð til sé góð og mér finnst þetta sanngjarnasta útfærslan en það er spurning hvort við getum einhvern tíma fundið lausn sem er 100% sanngjörn. En þetta er ekki endilega eina leiðin. Ég vil taka undir það að best væri auðvitað ef þjóðin fengi að velja um nokkrar leiðir og af því að í andsvörum áðan var rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna og hvort ekki þyrfti þá að kjósa aftur um þær tillögur sem yrðu ofan á, ef nokkrar yrðu í boði, þannig að einhver þeirra fengi hreinan meiri hluta, þá langar mig að benda á að til er kosningakerfi sem tryggir í raun að meiri hluti standi að baki einhverri einni tillögu. Það hefur ekki íslenskt heiti og ég bið forseta velvirðingar á því en þetta hefur verið kallað Single Transferable Vote og var notað þegar kosið var til stjórnlagaráðs. Þá raðar fólk valkostunum upp í þá röð sem það kýs þannig að þó að engin ein tillaga njóti yfir helmings stuðnings er tryggt með þessu kosningakerfi að hún njóti engu að síður stuðnings sem flestra.

Á eftir erum við að fara að ræða aðra tillögu sem mér finnst að við ættum endilega að skoða vel líka, og margt í henni sem mér finnst ljómandi gott. Enn höfum við þó ekkert séð á þessu þingi frá ríkisstjórninni, sem er kannski svolítið einkennilegt þar sem það er, skilst manni, eitt af þeirra aðalmálum að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu.

Verði frumvarpið samþykkt held ég að það verði gífurleg innspýting í byggðir landsins og ég treysti mér til að fullyrða að ekkert annað sem gert hefur verið mundi hafa viðlíka áhrif. Áðan var því velt upp hvað yrði með sveitarfélögin sem enga höfn eiga, þar sem engin veiðireynsla var, þar sem var ekki veitt, eru kannski inni í miðju landi. Hvað með þau? Við höfum fyrirbrigði sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sem á að jafna kostnað sveitarfélaga eftir stærð og aðstæðum. Mörg þeirra sveitarfélaga sem væru að fá gífurlegar tekjur, yrði þetta frumvarp að veruleika, þyrftu ekki á neinu framlagi frá jöfnunarsjóði að halda. Hvort hægt sé að hafa þetta þannig að hluti af andvirði kvóta færi hreinlega til ríkisins, sem úthlutaði gegnum jöfnunarsjóð til þeirra sveitarfélaga sem ekki væru með kvóta, það er náttúrlega líka eitthvað sem við þyrftum að hugleiða.

Það er eitt í þessu frumvarpi sem mér þykir sérstaklega vænt um og það er þessi skuldasjóður, sú hugmynd, vegna þess að hún er mjög nýstárleg og hún er lausnamiðuð. Við erum sem þjóð í gífurlegri skuldakreppu, sem væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum og ég held að hægt sé að útfæra þessa hugmynd sem lausn í miklu fleiri aðstæðum. Reyndar höfum við gert það líka. Við höfum lagt til álíka skuldasjóð þar sem skuldir eru teknar af þeim sem skulda og greiddar niður á ákveðinn hátt á löngu tímabili sem lausn í skuldavanda heimilanna þannig að það held ég að sé eitthvað sem við þyrftum að skoða líka og skoða á víðari grunni.