140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Virðiskeðjan í sjávarútvegi er sú að á skipum starfa sjómenn. Þar er skipstjóri og skipið er gert út af útgerð frá einhverjum stað sem er sveitarfélag. Síðan kemur fiskverkafólk við sögu, sem stundum vinnur í frystihúsi, en ef um er að ræða frystitogara er það komið í hendur sjómanna. Þá erum við með ríkið sem haghafa og svo það sem kannski er mest um vert og minnst er fjallað um sem er markaðssetning á sjávarafurðum.

Ef góður markaðsmaður fær hálfu prósenti meira fyrir aflann getur það haft meiri virðisauka en það sem sjómaðurinn fær. Öll þessi virðiskeðja hefur verið gagnrýnd og var ákveðið að útgerðin, sá hluti keðjunnar, fengi aflaheimildir á sínum tíma miðað við ákveðna reynslu. Hins vegar varð líka til eitthvað sem hét skipstjórakvóti, þ.e. skipstjórar fengu eitthvað fyrir sinn hlut, einstaka skipstjórar, ég þekki það ekki nákvæmlega.

Hér er lagt til að sveitarfélögin fái veiðiheimildir af öllum þeim sem eru í keðjunni og færa má rök fyrir því, bæði með og á móti. Það sem ég hef helst við það að athuga er að það er ákveðin byggðaþróun. Maður sér á töflu á bls. 7 að sum sveitarfélög hafa minnkað allverulega í kvótanum, t.d. Súðavíkurhreppur, hann veiddi 1,11% en er núna með 0,02%.

Nú veit ég ekki um íbúafjöldann í Súðavíkurhreppi og það þyrfti að skoða það. Hvað verður þetta mikið fyrir hvern íbúa þar? Ég er nefnilega hræddur um, og það er kannski það sem ég hef mest við þetta að athuga, að sum sveitarfélög fengju ofgnótt fjár. Það var sagt áðan í ræðu að Vestmannaeyingar fengju 4 milljarða, eftir lækkun væntanlega, sem þýðir að það er milljón á hvern íbúa, litlu börnin meðtalin og gamla fólkið. Það er umtalsvert mikið skattfé og það er spurning hvernig hin nýríku sveitarfélög fara með það fjármagn. Það má kannski segja að jöfnunarsjóður mundi jafna þetta út og taka hluta af þessari köku og mundi eflaust gera það vegna þess að þessi sveitarfélög fengju þá ekkert úr jöfnunarsjóði. En ég hef dálitlar áhyggjur af því að fámenn sveitarfélög sem voru mjög fjölmenn áður fyrr fái allt í einu mikla peninga og jafnvel svo að til vandræða horfi. Þetta þekkjum við reyndar í dag í sveitarfélögum sem eru með virkjanir. Þau geta verið með þvílíka fjármuni að þau geta malbikað heim að öllum bæjum og haft þar götuljós þannig að það er spurning hvernig menn fara með það fé.

Það sem mér líst best á í þessu er þessi markaðshugsun, að markaðsvæða kvótann. Þá má eiginlega segja að það skipti kannski ekki voðalega stóru máli hver í þessari virðisaukakeðju á kvótann, hvort það er útgerðin eða sveitarfélagið, ríkið, sjómaðurinn eða jafnvel bara íbúar landsins, eins og ég legg til í frumvarpi sem við ræðum á eftir. Markaðsvæðingin sem leiðir af þessu og væntanlega þá frjálst framsal, því að það er lítið varið í markaðsvæðingu ef ekki er frjálst framsal, mun leiða til þess að arðsemi verður eins mikil í kerfinu og hægt er. Sérhver takmörkun á framsali þýðir minni arðsemi, það er mjög einfalt. Það er mjög auðvelt að sanna það. Ég fer kannski í það á eftir ef ég hef tíma en mjög auðvelt er að sanna að sérhver takmörkun á framsali þýðir minni arðsemi og minni arðsemi þýðir minni hagur fyrir þjóðina. Þetta er ein af undirstöðugreinum þjóðarinnar, þó að vægið hafi sem betur fer minnkað mikið vegna þess að aðrar greinar hafa vaxið, og þá nefni ég áliðnað og ferðaþjónustu. Við vorum einu sinni með fjármálaþjónustu líka en hún hefur heldur betur beðið skipbrot.

Mér finnst þetta vera áhugaverðar hugleiðingar sem hér koma fram og alveg sjálfsagt að skoða hvernig þetta virkar. Ég hugsa að strandveiðar verði ekki eins spennandi þegar menn þurfa að fara að borga fyrir þær veiðiheimildir nákvæmlega eins og kvótagreifarnir. Þá fer kannski ljóminn af þeim veiðum. Það má segja að það að allir borgi hið sama geri það að verkum að allir séu jafnsettir og samkeppnin vaxi. Þeir sem veiða ódýrast og geta selt dýrast, það tvennt þarf að fara saman, munu geta boðið mest í heimildirnar öllum til hagsbóta. Það þýðir að útgerðin verður eins arðbær og mögulegt er og þjóðin græðir þá. Þetta er það sem við þurfum að hafa í huga við hönnun á fiskveiðistjórnarkerfi, hvernig sem það er gert, að það leiði til arðbærs rekstrar í útgerð.