140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég stíg upp til að vekja athygli á því undir liðnum um störf þingsins hversu íþyngjandi stöðugar verðhækkanir á eldsneyti eru orðnar, ekki bara fyrir heimilin og þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu, heldur alveg sérstaklega fyrir landsbyggðina, m.a. út af flutningskostnaði. Þær eru sláandi, tölurnar sem við sjáum á forsíðum beggja blaðanna í dag um það hve mjög umhverfið hefur breyst á skömmum tíma.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að létta undir á þessum erfiðu tímum eftir stöðugar verðhækkanir á erlendum mörkuðum? Hún hefur bætt í. Hún bætti síðast í um áramótin, nú fyrir skemmstu, þá var bætt í nokkrum krónum á öllum sviðum þannig að staðan varð enn svartari. Nú er svo komið að ríkið hefur aldrei í sögunni tekið fleiri krónur af hverjum seldum lítra. Samt er enn verið að bæta á álögurnar.

Í þinginu liggur frammi frumvarp um að vinda ofan af þessari þróun, koma til móts við þann mikla kostnað sem er að leggjast á landsbyggðina, m.a. út af flutningskostnaði, og alla þá sem þurfa að fara um langan veg vegna búsetu sinnar. Um leið væri komið til móts við alla þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þetta er sannarlega stór liður í útgjöldum heimilanna. Málið hefur ekki fengið góðar undirtektir hjá stjórnarliðum og ríkisstjórnin skellir skollaeyrum við öllum hugmyndum um að koma heimilunum til hjálpar. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Við á þjóðþinginu verðum að grípa inn í. Það er ætlast til þess af okkur þegar þróunin verður með þeim hætti sem orðið hefur að við sjáum ljósið, bregðumst við og grípum í taumana.