140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar, við þurfum að grípa til aðgerða er létta á þeim sem nota eldsneyti. Það er augljóst að kostnaðurinn er mjög íþyngjandi og þá kemur að því sem ég ætlaði aðallega að ræða hér, heimilunum. Aukinn kostnaður við rekstur bifreiða íþyngir heimilunum mikið, mismunandi þó eftir heimilum.

Ég talaði um það hér fyrir skömmu að ástæða væri til að taka til umræðu í þinginu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið um hvaða aðgerðir væri hægt að fara í fyrir skuldsett heimili í landinu. Ég fæ ekki séð að ráðherra ætli að verða við því. Þar af leiðandi munum við þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram skriflega beiðni um að hæstv. forsætisráðherra vinni og flytji skýrslu um stöðu heimilanna og að um hana verði umræður. Því verði beint til hæstv. ráðherra að svara ákveðnum spurningum sem er ósvarað eftir þessa skýrslugerð þannig að við á Alþingi getum fjallað ítarlega um þá stöðu sem heimilin á Íslandi eru í og þá erfiðu skuldastöðu sem langflest þeirra glíma við.

Gleymum því ekki að við höfum fengið tölur um að um 60 þús. heimili séu með neikvætt eigið fé, að 50% heimilanna eigi jafnvel erfitt með að ná endum saman. Á þessu verður að vinna.

Það þarf að gera með nokkrum aðgerðum, með því að leiðrétta þau lán sem eru á heimilunum í dag, það þarf að taka á verðtryggingunni sem svo mikið er búið að tala um og það þarf að horfa til framtíðar. Hvernig á húsnæðislánakerfið í landinu að vera til framtíðar og hvernig viljum við að ungmenni geti með sómasamlegum hætti komið sér þaki yfir höfuðið? Það umhverfi sem við erum með í dag og höfum verið í langan tíma er ekki boðlegt og það er sorglegt að ríkisstjórn sem komst til valda fyrir þremur árum, búin að hafa þrjú ár (Forseti hringir.) til að grípa inn í, hefur lítið sem ekkert gert í þessu.