140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að kvarta fyrir sjálfan mig, en ég held að það sé ljóst að aðbúnaður þingmanna er ekki nógu góður. Ég hvet starfsmenn þingsins til að kveikja á internetinu fyrir hv. þm. Magnús Orra Schram [Hlátur í þingsal.] þannig að hann geti kynnt sér hvað er að gerast í þessu ESB, sérstaklega áður en hann talar um gengismálin, björgunarsjóðinn og annað slíkt. Þessi hv. þingmaður hefur ekki fengið neinar upplýsingar um þau mál í að minnsta kosti eitt eða tvö ár. Það er afskaplega mikilvægt þegar menn taka þátt í umræðu eins og þessari að þeir séu þokkalega vel undirbúnir. Ég efast ekki um að um leið og hann fær aftur tengingu við netið getur hann tekið þátt í umræðunni með öðrum hætti en hann gerði hér.

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um eldsneytisverðið. Ég vek athygli á því að núna hafa eldsneytisskattarnir hækkað um bæði rúmlega og tæplega 50% á lítra, eftir því um hvaða eldsneyti um er að ræða. Ég spyr hv. þingmann, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvort hann sé ekki tilbúinn að fara í þá vegferð að skoða það að minnka þessar álögur. Um það bil helmingurinn af eldsneytisverðinu er opinberir skattar og gjöld. Þetta kemur fram í skertum lífskjörum, þetta kemur niður á ferðaþjónustunni og kemur auðvitað sérstaklega illa niður á því fólki sem hefur um langan veg að sækja, þarf til dæmis að fara langan veg til vinnu. Ég hvet í mestu vinsemd hv. þm. Helga Hjörvar til að beita sér nú fyrir því, og við getum örugglega stigið skref í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að endurskoða þessa skattstefnu. Þessir ofurskattar á eldsneyti eru ekki forsvaranlegir og koma (Forseti hringir.) mjög harkalega niður á fjölskyldum landsins.