140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þær eru á tíðum skemmtilegar, röksemdirnar sem heyrast í ræðustól Alþingis. Hér áðan heyrðist að aldrei fyrr hefði íslenska ríkið lagt jafnmargar krónur á bensínið og nú, en allir sem eru eldri en tvævetur vita að það á við um flesta hluti í íslensku samfélagi. Þeir hafa aldrei kostað fleiri krónur [Kliður í þingsal.] og gjöldin aldrei verið hærri vegna þess að þessi gjaldmiðill er einfaldlega þeirrar náttúru að hann rýrnar frá ári til árs sem kallar á verðbólgu og það að við leggjum sífellt fleiri og fleiri krónur á.

Á móti, og það er rétt að menn muni það í svartsýni sinni í ræðustólnum, hækkar kaupið líka, núna 3,5%, var það ekki? (Gripið fram í.) Það má sannarlega gleðjast yfir því. (Gripið fram í.)

Við þurfum að huga að þeim vítahring sem skapast getur við miklar kaupgjaldshækkanir sem leiða af sér miklar verðlagshækkanir, hækkanir á lánum heimilanna sem aftur knýja á um kauphækkanir og þann verðbólguvítahring sem við Íslendingar þekkjum vel. Þess vegna tek ég undir að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af hækkandi bensínverði en þá kannski ekki síður þætti álagningarinnar í bensínverðinu. Ég get svarað hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni því að ég er fyllilega tilbúinn að taka það mál inn í efnahags- og viðskiptanefnd og fara yfir annars vegar þátt álagningar olíufélaganna og hins vegar áhrif gjaldanna og þróun markaðsverðs á heimsmörkuðunum á olíuna í þessu efni. Auðvitað er mikilvægt að við höldum vökulu auga okkar á þróun á jafnmikilvægum markaði og þessum, bæði fyrir heimilin og ekki síður atvinnulífið í landinu.