140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að fagna þriggja ára afmæli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur [Kliður í þingsal.] sem hefur komið miklu í verk. Það er hjásaga sem tönnlast hefur verið á af hálfu stjórnarandstöðunnar að þessi ríkisstjórn komi engu í verk. Því fer fjarri, ríkisstjórnin tók við ömurlegu búi, engin ríkisstjórn (Gripið fram í.) hefur tekið við jafnslæmu búi og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur [Kliður í þingsal.] fyrir þremur árum. Hún hefur komið gríðarlega miklu í verk og hefur snúið samfélaginu til betri vegar. Það liggur fyrir. En vel að merkja, hún á margt eftir að gera enn. (Gripið fram í: Hallelúja.) Til að mynda á hún eftir að laga sérgæskuverkefni íhaldsaflanna sem lýtur að sjávarútvegsmálum og færa til almannahagsmuna. Hún á jafnframt eftir að laga áætlanir um uppbyggingu á stóriðju- og virkjanasvæðum til betri og almenns vegar. Við erum að færa samfélagið til almannahagsmuna frá sérhagsmunum sem einmitt lögðu grunninn að hruninu í samfélagi okkar. Það er enn nóg að gera í þessum efnum og það verður gert.

Þriggja ára afmæli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur (Gripið fram í.) er í dag. Því ber að fagna að það var einmitt þessi stjórn sem tók við af einkavæðingaröflunum. Það var þessi stjórn sem gat komið á aga í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) Algjört agaleysi í ríkisfjármálum fram að því að núverandi stjórn tók við er partur af því hvernig fór fyrir þjóðinni á sínum tíma. (Gripið fram í.) Við erum að snúa frá agaleysi til aga í ríkisfjármálum. Það var tími til kominn.

Ég segi í dag: Til hamingju með þessa ríkisstjórn, hún er enn að gera góða hluti og mun gera á komandi vikum og mánuðum. Ég hlakka til en sumir óttast að sjálfsögðu næstu vikur. [Frammíköll í þingsal.] (Gripið fram í: Hallelúja.)