140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég óska Íslendingum til hamingju með þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. [Hlátur í þingsal.] Ríkisstjórnin er ekki einasta vinstri stjórn sem vinnur að endurreisn og umbótum með almannahagsmuni og jafnaðarhugsjónina að leiðarljósi, heldur er hún jafnframt fyrsta ríkisstjórn Íslandssögunnar sem er leidd af konu, hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég er stolt af því að styðja slíka ríkisstjórn. (Gripið fram í.)

Mér finnst við hæfi að minnast annarra tímamóta, þ.e. 30 ára frá stofnun kvennaframboðs og síðar kvennalista sem markaði tímamót í íslenskri stjórnmálasögu og setti málefni kvenna og barna á dagskrá stjórnmálanna. Þessi samtök höfnuðu hugmyndafræði feðraveldisins sem fólst meðal annars í því að taka ætti ákvarðanir með samræðum og sameiginlegri niðurstöðu en ekki í átakaferli.

Alþingi, frú forseti, hefur þegar breytt þingsköpum sínum í þessa átt en það er langt í land. Ég óska eftir því á þessum tímamótum að þingskapanefnd geri tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að sinni og setji í þingsköp víðtækari heimildir forseta til að ákvarða tímamörk umræðna. Það mun gera umræðuna í þingsal markvissari, gera þingmönnum kleift að skipuleggja störf sín betur, draga úr átökum og efla traust kjósenda á Alþingi.

Frú forseti. Í lýðræðisríkjum takast stjórn og stjórnarandstaða á um málefni og stefnur en þingið á ekki að vera vettvangur óþarfs skætings og dagskráin á ekki að ráðast af geðþótta. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)