140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er hægt að segja margt um þær ræður sem hafa verið haldnar hér, en þær bera fyrst og fremst vott um að fólk sé í mjög litlu sambandi við raunveruleikann og almenning í landinu og enn minna sambandi við það sem gerist erlendis og er í erlendum fjölmiðlum.

Ég ætlaði að taka upp mál sem var á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar í morgun og snýr að fyrirhuguðum áætlunum ríkisstjórnarinnar um að friða fimm svartfuglategundir. Á fund nefndarinnar kom starfshópur sá sem var skipaður af umhverfisráðherra og farið var yfir þetta mál. Umræðurnar í nefndinni voru vægast sagt mjög sérstakar og furðulegt að lagðar væru fram tillögur sem þessar án þess að fyrir lægju neinar rannsóknir að baki slíkum ákvörðunum. Það mátti skynja það á nefndarmönnum að þetta hefði verið rætt á þeim nótum að ráðast ætti í almennar aðgerðir í sátt og samvinnu, rætt hefði verið um það á fundum þessa starfshóps, en á síðustu metrunum hefði orðið kúvending hjá ákveðnum fulltrúum. Niðurstaðan varð allt önnur en rætt hafði verið um allan tímann. Niðurstaðan varð sú að ráðast þyrfti í allsherjarfriðun á þessum tegundum þvert gegn rannsóknum, þvert gegn því sem fyrir liggur af gögnum og upplýsingum og ráðast þyrfti í framtíðarbreytingar á uppbyggingu þess málaflokks er snýr að þeim sem hafa nýtt hlunnindi landsins.

Frú forseti. Það er mikið áhyggjuefni að horfa upp á að slíkar breytingar skuli lagðar fram. Maður veltir fyrir sér hvað búi þar að baki. Getur verið — en það kom fram á fundum nefndarinnar að menn, m.a. í Skotvís, höfðu miklar áhyggjur — að þarna að baki (Forseti hringir.) búi þau rök og þau sjónarmið að Evrópusambandið hafi gert kröfur um þetta, [Háreysti í þingsal.] að Evrópusambandið hafi gert kröfur um það, frú forseti, (Forseti hringir.) að þessar tegundir verði friðaðar, að það sé að kröfu (Forseti hringir.) Evrópusambandsins sem verið sé að ráðast í þessa framkvæmd? (Forseti hringir.) Ég hvet fólk til að kynna sér rýniskýrslur um þetta mál (Forseti hringir.) og þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá ýmsum aðilum um málið. [Frammíköll í þingsal.]