140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er vægast sagt kaldhæðnislegt þegar ríkissjóður innheimtir nú sem aldrei fyrr fjármuni af almenningi í landinu í gegnum háar álögur á eldsneyti að þá skuli þingmenn Samfylkingarinnar gera sér sérstaka ferð hingað upp til að lýsa því yfir að þjóðin eigi að fagna því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé þriggja ára í dag, á þeim tíma sem eldsneytisverð er í sögulegu hámarki hér á landi. (Gripið fram í.)

Það var merkilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra hér á dögunum lýsa yfir verulegum áhyggjum af verðbólgunni, að verðbólgan sem blasir við skuldugum heimilum væri mjög alvarleg þróun. Þetta er sami ráðherrann og var að hækka álögur á landsmenn um síðustu áramót sem hafa leitt það af sér að eldsneytisverð hér á landi er í sögulegu hámarki.

Það er ansi merkilegt að heyra að mörgum stjórnarþingmönnum sem koma hingað upp skuli finnast merkara að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé þriggja ára í dag en að takast á við það verkefni að koma með tillögur um hvernig lækka eigi álögur á heimilin í landinu. Umræðan hér af hálfu margra þingmanna stjórnarmeirihlutans sýnir svart á hvítu hver forgangsröðunin er. Hún er sú að halda lífi í þessari ríkisstjórn umfram allt annað. Það er ekki verið að taka tillit til þess að skuldsett heimili munu um næstu mánaðamót þurfa að borga meira af lánum sínum, sem eru stökkbreytt fyrir, vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið að hækka álögur á eldsneyti og bensín. Nei, þess í stað koma þingmenn Samfylkingarinnar hingað upp, berja sér á brjóst og óska sjálfum sér til hamingju með þriggja ára afmælið. Ég verð ekkert var við mikinn fögnuð á Austurvelli eða meðal þjóðarinnar yfir því að ríkisstjórnin skuli hafa lifað það af að starfa í þrjú ár. (Gripið fram í.) Það hefði verið betra ef hún væri löngu hætt störfum og við hefðum aðra stefnu sem skilaði sér í því að lækka (Forseti hringir.) álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu. Við þurfum einhverja aðra ríkisstjórn en þá sem er sjálfumglöð yfir eigin afmæli á þessum leiðinlega degi þegar eldsneyti er í sögulegu hámarki. [Hlátur í þingsal.]