140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki vissi ég til þess fyrr að þessi ræðustóll væri notaður til að æfa sig við uppistand. [Hlátur í þingsal.] Þeir hv. þingmenn sem hafa talað hér, Magnús Orri Schram, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fara með gamanmál. Þau fagna þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Ég bið landsmenn að flagga í hálfa stöng vegna þess að þessi dagur er runninn upp, þriggja ára afmæli vonlausrar og verklausrar ríkisstjórnar, Samfylkingin búin að vera (Gripið fram í.) fimm ár í ríkisstjórn og það er eins og hún sé nýtekin við þar sem hún talar um vandamálin eins og hún hafi aldrei komið að þeim sjálf. Ríkisstjórnarflokkarnir tala á þann hátt að það sé allt einhverjum öðrum að kenna. Þeir finna upp lausnirnar frá degi til dags en fatta ekki sjálfir að þeir eru búnir að stjórna í þrjú ár. Valdið er þeirra.

Ef þeir vilja lækka verðbólgu, afnema verðtryggingu, afnema vísitölu á lán og lækka skuldir landsmanna er það í þeirra valdi. Þeir koma alltaf fram eins og hvítskúraðir englar og skilja ekkert af hverju gengur svona illa.

Ég minni á það að hæstv. forsætisráðherra er búinn að sitja tæp 35 ár á þingi, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hefur setið rúm 30 ár á þingi. Er nema von að ekkert gerist? Þessir einstaklingar hafa ekki tekið tæknina í sínar hendur [Hlátur í þingsal.] og kunna ekki að leysa nútímaverkefni. Þeir eru raunverulega ráðþrota. Svo kemur söngkórinn hér, uppistandararnir, og hrósar sér yfir árangri þessarar verklausu ríkisstjórnar.

Frú forseti. Það ætti að taka þennan dag upp í sögubækur og líklega verður hann færður þangað úr því að þessi ríkisstjórn er búin að lifa í þrjú ár. Ég held að það væri rétt að einhverjir fjörugir Íslendingar (Forseti hringir.) mundu flagga í hálfa stöng í dag. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: … að gamni sínu að flagga í hálfa stöng.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)